143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæra Alþingi. Í síðustu viku var haldin svokölluð kjördæmavika á Alþingi og þá voru ekki fundir í þessum sal heldur þeystu alþingismenn um kjördæmi sín og hittu sveitarstjórnarfólk og aðra. Þá var meðal annars haldinn ágætur kynningar- og samráðsfundur fyrir þingmenn Reykjavíkurborgar. Sá fundur tók þó ekki heila viku og hvað gerðu þingmenn Reykjavíkur restina af vikunni? Fóru þeir saman í Kringluna? Ekki svo ég viti. Sá þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður sem hér stendur er hugsi og var hugsi fyrir kosningarnar þegar ég hitti marga kjósendur í Reykjavíkurkjördæmunum sem vissu ekki í hvaða kjördæmi þeir byggju, hvort þeir væru í suður eða norður, og það fær mig til þess að hugsa hvort kjördæmaskipting landsins sé endilega rétt.

Þegar maður fylgist með umræðum á Alþingi heyrir maður að þingmenn landsbyggðarkjördæma koma hérna með mál úr kjördæmum sínum en ég hef ekki tekið eftir að þingmenn Reykjavíkurkjördæmis suður tali meira um Háskóla Íslands en þingmenn Reykjavíkurkjördæmis norður. Það er hætt við að þetta ýti undir þá tilhugsun að Reykjavík sé eitthvað annað en restin af landinu, að Ísland sé Ísland og Reykjavík eitthvað annað. Ég veit ekki til þess að Frakkland sé Frakkland annars vegar og París hins vegar. Frakkland er Frakkland með París og Ísland er Ísland með Reykjavík.

Mér finnst mikilvægt að Alþingi hugsi það að við erum þjóð sem býr í einu landi. Við erum með eina borg og við þurfum að byggja upp þessa borg okkar til að unga fólkið noti ekki flugvélarnar sem fljúga hérna yfir (Forseti hringir.) á hverjum degi og flytji til útlanda.