143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[15:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það kemur á óvart að hingað til hefur aðeins kvenmönnum verið treyst fyrir umræðunni en hér er bætt úr.

Það hlutverk sem við erum hér með er mjög mikilvægt, þ.e. að fjölga konum í lögreglunni. Á því hafa stjórnvöld áttað sig fyrir svolitlu síðan með því að breyta lögum og reglum fyrir Lögregluskólann til að fjölga konum. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að nota niðurstöðu þessarar skýrslu til að halda því markmiði til streitu og nálgast það hraðar, nota skýrsluna til að greina hvað er vandamál og af hverju hefur ekki tekist betur til. Það má lesa margt út úr skýrslunni og eitt það sem ég tel að geti verið ástæðan er menningin sem hefur byggst upp á vinnustaðnum þar sem karlmenn hafa verið í miklum meiri hluta frá upphafi og skapað vissa menningu. Það þarf að breyta menningunni með nýjum aðstæðum, bæði nýjum störfum innan lögreglu og annarri samsetningu. Í það þarf að ganga núna strax og þar held ég að yfirstjórn lögreglunnar eigi að grípa boltann. Löggjafinn er búinn að setja jafnréttislög, breyta lögreglulögum og annað. Nú þarf yfirstjórnin að taka við og setja á fót jafnréttisáætlanir og annað. Þess vegna er ánægjulegt það frumkvæði ríkislögreglustjóra að stofna starfshóp til að taka á verkefninu. Hann hefur nú þegar óskað eftir tilnefningum sem ég held að séu komnar.

Vandamálið við framgang innan lögreglunnar er kannski meira en bara gagnvart konum. Það er jafn mikil óánægja með framgang innan lögreglunnar hjá körlum og konum eins og kemur fram í skýrslunni. Eitt vandamálið í lögreglunni er að maður þarf að fá stöðuhækkun til að komast áfram.

Ég tel jákvætt (Forseti hringir.) að það séu frekar ungir en eldri lögreglumenn sem treysta konum síður af því að þeir eldri vita hvað konurnar geta eftir starfsreynsluna og vita betur út á hvað starfið gengur.