143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Ég ætla bara að sjá til með það hvernig ég greiði atkvæði. Ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á því enda ætla ég að skoða þetta betur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og sjá til hvort hægt sé að færa rök fyrir því að hér sé verið að banna beinlínis ógnanir. Það sem fer í taugarnar á mér við bæði þetta frumvarp og lögin sem það á að breyta er að þar er bannað að hæðast að, það er bannað að gera grín.

Tjáningarfrelsi á Íslandi er ekki bara skorðað með 233. gr. almennra hegningarlaga a og b heldur er til dæmis samkvæmt 95. gr. bannað að smána opinberlega erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki. Samkvæmt 125. gr. skal hver sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags sem er hér á landi sæta sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum. Mál skal ekki höfða nema að fyrirlagi saksóknara.

Síðan er það auðvitað 233. gr. sem við erum að tala um hér, a og b, svo er 234. gr. sem er um að hver sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum og hver sem ber slíkt út skuli sæta sektum o.s.frv.

Í 235. gr. segir að ef maður drótti að öðrum manni einhverju því er verða mundi virðingu hans til hnekkis eða beri slíka aðdróttun út varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Í 237. gr. sömu laga segir að ef maður bregði manni brigslum án nokkurs tilefnis varði það sektum — þótt hann segi satt.

Í 240. gr. segir að sé ærumeiðingum beint að dánum manni varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári

Það er nóg af greinum í almennum hegningarlögum sem eru gerð til þess að vernda allar hugsanlegar útfærslur á öllum hugsanlegum orðstír allra í landinu. Mér er spurn: Er ekki markmiðið að allir hafi sömu réttindin? Hvers vegna erum við þá með þessa upptalningu? Hvers vegna erum við ekki með lögin þannig að hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar og ógnar manni og svo framvegis án tillits (Forseti hringir.) til nokkurs skapaðar hlutar sæti refsingu?