143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

18. mál
[18:20]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér ekki að lengja þessa umræðu. Ég hef tekið þátt í endurskoðun á þessari löggjöf allar götur frá árinu 2010 og það verulega. Reyndar kom ég harkalega að sams konar máli árið 2003 þegar Landsbankinn yfirtók Eimskipafélagið og benti á að fjármálafyrirtæki væri þetta ekki heimilt. Þá benti ég á að Landsbankinn væri ekki fjárfestingarfyrirtæki, Landsbankinn væri fjármálafyrirtæki sem hefði ekki þá starfsheimild að reka skipafélag í dótturfélagi. Þáverandi stjórnendur Fjármálaeftirlitsins töldu þetta allra eðlilegasta hlut, a.m.k. gat ég ekki skilið þá öðruvísi. Ég hef reyndar komið þessu að í greinaskrifum í fyrra starfi mínu sem háskólakennari. Þar hef ég talið það vera upphafið að því sem hér gerðist að menn fóru á svig við lög um fjármálafyrirtæki. Hér varð siðrof sem ég leyfði mér að dagsetja.

Eins og ég sagði áðan að fyrst Bandaríkjamenn töldu ástæðu til að skoða þetta, fyrst Bretar telja ástæðu til að skoða þetta og Evrópusambandið þá ætla ég ekki að banna Íslendingum að skoða þetta. Hafi ég verið beðinn um aðstoð við að bjarga íslenskum fjármálamarkaði hef ég ekki legið á liði mínu. Ég vona að þetta svari spurningu … (Gripið fram í.) Ha? (Gripið fram í.) Ég sagði áðan í innleggi mínu að ég mundi styðja þetta að öðru óbreyttu. Þetta er orðin löng spurning. (JÞÓ: Takk fyrir.) Ég hef lokið máli mínu.