143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

20. mál
[18:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að flytja þessa tillögu og lýsi yfir stuðningi við hana enda eru hér tveir flokksbræður mínir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Helgi Hjörvar, meðflutningsmenn að henni.

Þess er skemmst að minnast að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, flutti einmitt tillögu hér um viðurkenningu á fullveldi Palestínu sem fór mótatkvæðalaust í gegnum þingið. Það var almennur stuðningur við þá tillögu þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi valið að greiða henni ekki atkvæði, því miður. Mér finnst mikilvægt að neytendur viti hvers konar vörur þeir kaupa. Fjöldi fólks vill ekki kaupa vörur frá hernumdum svæðum.

Ég er með spurningu til hv. þingmanns: Af því að síðari hluti tillögunnar er sá að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu, hvað þarf þá til svo þeim verði gert kleift að nýta fríverslunarsamninginn?