143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

sæstrengur til Bretlands.

[10:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. Ég hafði ekki séð að þessi frétt hafði verið dregin til baka. Þá liggur fyrir að það hefur verið orðum aukið eins og það var orðað í Morgunblaðinu að forseti lýðveldisins hvetti beinlínis til fjárfestinga í sæstreng.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin um vinnuna og sérstaklega af því að hann nefndi að áfram yrði haft samráð um vinnuna. Þetta er auðvitað stórmál. Það mundi boða ákveðna breytingu á þeirri stefnu sem hér hefur verið uppi í orkumálum.

Nú hafa hv. þingmenn Bjartrar framtíðar lagt fram þingsályktunartillögu um að áfram eigi að vinna að málinu, sem sagt að svara þessum spurningum. Ég brýni hæstv. forsætisráðherra í því að ríkisstjórnin hafi forgöngu um að ráðist verði í þá vinnu í ljósi þess að þar þarf að meta ýmislegt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Hann nefndi hér atvinnusköpun. Ég nefni líka það sem hefur verið nefnt um afhendingaröryggi innan lands. Það þarf einnig að svara þeim spurningum sem snúa í raun og veru að umframorkunni og kerfinu, hversu mikil hún er því að sú umframorka getur verið á ákveðnu bili. (Forseti hringir.) Þessi vinna þarf að fara af stað.