143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

atvinnutækifæri fyrir ungt fólk.

[10:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Á dögunum var gerð könnun á vegum MMR sem leiddi í ljós að 56% svarenda á aldursbilinu 18–29 ára höfðu alvarlega íhugað að flytja til útlanda á síðustu mánuðum. Þetta hlutfall var tæp 50% hjá svarendum á aldrinum 30–39 ára.

Það var líka gerð svona könnun á haustmánuðum 2011 sem sýndi sambærilega niðurstöðu. Sem sagt verulega stórt hlutfall ungs fólks á Íslandi íhugar alvarlega að flytja til útlanda.

Þetta var ein kveikjan að því að við völdum nafnið Björt framtíð á hið nýja stjórnmálaafl sem við stofnuðum skömmu síðar vegna þess að við lítum svo á að það sé eitt meginviðfangsefni stjórnmála að skapa tiltrú ungs fólks á framtíðinni. Þess vegna var ráðist í fjárfestingaráætlun sem gengur út á að skapa fjölbreyttari atvinnumarkað og reyna að búa svo um hnútana að í framtíðinni geti ungt fólk fundið störf við sitt hæfi, í skapandi greinum, kvikmyndagerð, hönnun, tónlist, í uppbyggingu á grænum iðnaði og öllum þeim grænu tækniframförum sem þurfa að fara fram í nýsköpun og þróun, sem og ferðaþjónustu svo dæmi séu tekin. Við höfum metið það þannig í Bjartri framtíð að eitt lykilatriði í því að halda ungu fólki á Íslandi, koma í veg fyrir að það flytjist brott, séu fjárfestingar, líka í nauðsynlegum innviðum í heilbrigðisþjónustu. Það berast fregnir um það að ungt fólk komi ekki aftur til að starfa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi vegna slæms aðbúnaðar.

Það liggur hins vegar fyrir að eiginlega allt þetta hefur verið slegið af. Það er rauði þráðurinn í fjárlagafrumvarpinu; fjárfestingaráætlun er slegin af, sóknaráætlun landshluta slegin af, fjárfestingar í heilbrigðisþjónustu eru í óvissu.

Mínar spurningar (Forseti hringir.) eru því: Deilir forsætisráðherra áhyggjum mínum af þessum viðhorfum ungs fólks? Hvert er planið? Hvar liggur sóknin?