143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

atvinnutækifæri fyrir ungt fólk.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hvað varðar sameiginlegar auðlindir má nefna sem dæmi að tekjur samfélagsins af sjávarútvegi hafa aldrei verið meiri en þær eru nú og verða á næsta ári. Það dugar hins vegar því miður ekki til vegna þeirrar skuldasöfnunar sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.

Hv. þingmaður nefndi líka arð af eignum hins opinbera í fjármálakerfinu. Þar virðist iðulega gleymast að þær eignir voru keyptar með lántöku. Ríkið tók lán fyrir öllu því fjármagni sem það setti inn í bankana og skuldar þá peninga með vöxtum núna. Ég held að vextirnir bara af því fjármagni sem ríkið er búið að setja inn í bankana séu komnir yfir 50 milljarða kr. — gott ef þeir eru ekki komnir í 55 milljarða. Það þýðir að þegar ríkið tekur þetta fjármagn út úr bönkunum mun það illu heilli þurfa að nýta það til að greiða niður þessar skuldir og þá er ekki hægt að nýta peninginn aftur í annað.

Aðalatriðið er, ef við viljum byggja hér upp velferðarsamfélag til langs tíma, samfélag þar sem nýsköpun getur notið sín, að við greiðum niður skuldir hins opinbera.