143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

undanþágur frá upplýsingalögum.

[10:49]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það voru allt of margar rangfærslur í fréttum af þessum málum, án þess að ég sé að segja að hv. þingmaður hafi farið með rangt mál, til að ég geti rakið það allt hér. Ég verð því að einbeita mér að fyrirspurninni og byrja þá á því að útskýra hvers vegna þessar undanþágur eru til staðar. Það er einfaldlega vegna þess að fyrirtæki sem eru í eigu ríkisins en eru að keppa við einkafyrirtæki stæðu mjög illa að vígi ef þau eingöngu þyrftu að veita upplýsingar um alla sína starfsemi sem keppinautarnir gætu þá nýtt sér og mundi mjög skerða samkeppnisstöðu hinna opinberu fyrirtækja. Þetta snýst með öðrum orðum um að vernda sameiginlegar eignir okkar.

Í því skyni hefur þessum undanþágum verið komið á og fyrirkomulagið er slíkt að ráðherrar leggja til að ákveðnum fyrirtækjum á sínu sviði verði veittar undanþágur. Tillögur ráðherra berast síðan í forsætisráðuneytið þar sem undanþágurnar eru veittar. Þegar þessi beiðni barst á sínum tíma spurði ég hvort einhver tilefni væru til að veita ekki undanþágur og það lá skýrt fyrir að það væri enginn grundvöllur fyrir forsætisráðuneytið að koma í veg fyrir að slíkar undanþágur yrðu veittar. Engu að síður, af því að ég deili oft áhyggjum hv. þingmanns og þingmanna Pírata, setti ég inn sérstakan fyrirvara um að fengin yrði umsögn Samkeppniseftirlitsins og undanþágur endurskoðaðar þegar sú umsögn lægi fyrir. Þeir tímafrestir sem vísað var í í einhverri frétt, þ.e. að Samkeppniseftirlitið hefði bara haft einn dag eða eitthvað slíkt til að meta þetta, voru ekki réttir. Þessi mál höfðu legið fyrir í kerfinu, flest líklega frá tíð síðustu ríkisstjórnar, áður en þau komu til afgreiðslu í forsætisráðuneytinu.