143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

sjúkraflutningar.

[10:56]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hér er spurt um sjúkraflutninga og stöðu þeirra mála. Veruleikinn er sá að það hefur verið samningslaust frá árinu 2011 um þennan mikilvæga þátt heilbrigðisþjónustunnar og ég deili þeim áhyggjum sem fólk sýnir vegna þess að þetta er í uppnámi. Fyrir liggur samningsgrundvöllur, ekki sem samninganefnd ríkisins kom sér saman um, það var engin samninganefnd um þetta, það var starfshópur sem skilaði fyrrverandi velferðarráðherra tillögum að samningsgrunni. Í þeim samningsgrunni fólst sá sameiginlegi skilningur aðila að það væri forsenda fyrir því að hægt væri að ná og ganga til samninga um þennan mikilvæga þátt þegar fjármögnun lægi fyrir. Sú fjármögnun liggur ekki fyrir í fjárlögum ársins 2013 en þetta mál var ekki unnið til enda af fyrrverandi ríkisstjórn. Enn í dag liggur ekki fyrir niðurstaða um fjármögnun þessa máls. Ég legg áherslu á það sem faglegur yfirmaður þessara mála hefur sagt, Viðar Magnússon læknir, hann leggur til að menn umgangist þetta af mikilli varúð, það sé mikið undir. Það er hins vegar alveg ljóst að himin og haf ber á milli krafna sveitarfélaganna og afstöðu ráðuneytisins varðandi fjárhæð í þessum efnum.

Ég get upplýst hér að kröfugerð sveitarfélaganna hljóðar upp á tæpar 800 millj. kr. og þá liggur fyrir að samningur við sveitarfélögin, ef að þessu yrði gengið, hefði hækkað um 85% frá árinu 2008 á sama tíma og við erum með niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni á bilinu 13–25%.

Ég ætla að koma að aðeins fleiri upplýsingum varðandi þennan þátt í síðara andsvari (Forseti hringir.) og svara þá þeim beinu fyrirspurnum sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) bar fram.