143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

70. mál
[11:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að leggja þessa tillögu fram aftur. Ég sat í velferðarnefnd sem varamaður þegar málið kom inn á síðasta þingi og þá fengum við til okkar gesti sem voru einmitt nokkuð sáttir við flest af því sem hér hafa verið færð rök fyrir. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni, að samfélagið hefur auðvitað breyst. Lögin hafa kannski ekki alveg gengið í takt við veruleikann og það hefur ekki alltaf tekist að ná sátt og samvinnu á milli foreldra og því eru mörg álitamál í þessu.

Varðandi hvaða leiðir og hvaða reglur verða síðan ofan á þegar upp verður staðið er svo annað mál en auðvitað er það fyrst og fremst jafnrétti barna til samvista við báða foreldra. Af því að ég þekki svona lagað úr mínu umhverfi, vegna þess að hv. þingmaður nefndi að samliggjandi skólahverfi væri eitt af því sem hefði verið nefnt, þá er það nú þannig að stundum búa foreldrar ekki í sömu landshlutum og þá getur þetta orðið kannski aðeins snúnara, þ.e. þegar kemur að réttindum barns til að sækja þjónustu, t.d. í skólum. Því er mikilvægt eins og hér var rakið að koma inn einhverjum lagaheimildum eða einhverjum ramma utan um þessi mál.

Í greinargerð með frumvarpi til barnalaga kom fram að lögð var rík áhersla á sameiginlega forsjá og jafna ábyrgð foreldra, hún ætti að grundvallast á góðu samstarfi og að foreldrar eigi að jafnaði að hafa möguleika til að skipta með sér opinberum framlögum eftir að þau væru greidd. Það hefur náttúrlega ekki orðið raunin, það vitum við. Þetta er eitt af því sem þarf líka að laga en fyrst og fremst held ég að það sé rétturinn til samvista. Þetta er stórt mál og margir núningsfletir eru í því sem getur orðið snúið að finna út úr hvernig á að fara með. En auðvitað hlýtur það alltaf á endanum að vera þannig að barnið á að njóta vafans, þ.e. réttinn til samvistar.

Ég ætlaði bara rétt aðeins að koma inn á þetta af því að mér finnst málið mjög gott og á eftir að koma inn í það síðar og vona þá að innanríkisráðherra taki þetta upp á sína arma og skipi starfshópinn sem allra fyrst.