143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

106. mál
[12:08]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka flutningsmanni fyrir þessa tillögu og ræðu sem hún flutti hérna áðan. Margt í henni get ég sannarlega tekið undir. Auðvitað þurfum við djúpa og mikla umræðu um þetta stóra mál og, eins og hún brýndi okkur, ekki festa okkur í einhverjum fyrir fram gefnum sjónarmiðum í þessu.

Það sem ég vil leggja inn í þessa umræðu er í fyrsta lagi að mér finnst tillagan í sjálfu sér óheppileg. Í greinargerðinni segir:

„Það er mat flutningsmanna að slík umræða“ — þ.e. umræða um skýrslu sem iðnaðarráðherra hyggst koma með inn í þingið um lagningu sæstrengs — „sé ekki tímabær þar sem nauðsynlegt er að svara spurningum sem fram koma í skýrslu ráðgjafarhópsins og kortleggja alla þætti verkefnisins áður …“

Ég er þessu ósammála. Ég vil að við ræðum skýrsluna fyrst í þinginu og gefum þá þinginu og þar af leiðandi umfjöllun í þingnefndinni möguleika á að bæta við þessa umræðu. Mögulega eru fleiri þættir sem við viljum að verði unnið með en bara þau atriði sem koma fram í skýrslu ráðgjafarhópsins. Þar er sannarlega af mörgu að taka og þess vegna finnst mér mikilvægt að umræðan um skýrsluna sem boðuð hefur verið fari hér fram. Þeir þættir sem ég tel að við þyrftum að taka með inn í þessa umræðu hafa kannski kristallast á almennum stjórnmálafundum sem maður hefur sótt á undanförnum vikum þar sem almenningur hefur látið þetta mál sig varða. Þá koma upp atriði eins og: Hvað þyrftum við að gera upp við okkur áður en við stígum það stóra skref að selja raforkuna með þessum hætti? Ég tel mjög áhugavert að við göngum í gegnum þá umræðu og skoðum málið. Ég er alls ekki að hafna því, það má ekki að taka orð mín þannig. Þá eru samt atriði eins og hvaða grunnskilyrði við þurfum að klára hér hjá okkur bara sem samfélag, þætti eins og jöfnun húshitunarkostnaðar sem er nú í kastljósinu út af fjárlagafrumvarpinu. Ég þekki vel þá umræðu og er að mörgu leyti sammála gagnrýni á þann hluta fjárlagafrumvarpsins svo það komi hérna fram.

Þá þyrftum við kannski að bæta við umræðuna um þessa mikilvægu skýrslu og þetta mikilvæga mál hvort við ættum ekki að byrja á að jafna aðstöðumun eins og húshitunarrafmagn og verð á dreifingunni til notendanna áður en við stígum það skref að selja raforku til útflutnings.

Síðan er bara almenn umræða um dreifikostnað og hvers vegna við ættum að hafa sérstakt dreifigjald á rafmagn í dreifbýli og annað í þéttbýli, af hverju við megum ekki vera ein þjóð í notkun á þessari mikilvægu auðlind.

Í þriðja lagi er umræðan um hvers vegna við ættum að senda rafmagnið úr landi án þess að taka úr því meiri framlegð með vinnu. Við þekkjum umræðuna um gámafiskinn sem er fluttur óunninn úr landi og við teljum okkur geta búið til frekari verðmæti.

Ég verð að segja að ég er að því leyti ósammála þeirri þingsályktunartillögu sem hér er flutt að það eru mörg atriði sem ég vil að þingið taki upp og ræði í sambandi við skýrsluna til að bæta þá inn í þessa umræðu. Ég tek aftur á móti alveg undir mikilvægi þessara punkta sem hér eru, þá þarf að skoða, en ég vil að við fáum tækifæri til að bæta fleiri atriðum við og fara dýpra inn í þessa umræðu.