143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

106. mál
[12:15]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið málefnaleg og fyrir það er ég þakklát.

Aðeins til að bregðast við því sem hv. þm. Haraldur Benediktsson ræddi, hvort það væri rétt næsta skref að setja málið inn í þingið eins og hæstv. iðnaðarráðherra er að gera — sko, ef við ætlum að ræða á þeim nótum sem hv. þingmaður gerir þá er það allt í lagi út af því að það er málefnaleg umræða og ég er mjög þakklát fyrir hana. En ég var hrædd um í ljósi þess að við áttum hérna sérstaka umræðu um málið fyrir nokkru — það er kannski skiljanlegt, en þetta er alla vega fyrsta skrefið í málinu að þessu sinni í þinginu — og þá var umræðan svolítið grunn, verð ég að segja eða það var mitt álit, að við mundum tala okkur hás um eitthvað sem gæti verið og við hefðum ekki nógar forsendur til þess að byggja á.

Þetta er ekki eitthvert mál sem við afgreiðum og svo er það bara græjað, alls ekki, það er ekki þannig. Þetta er langtímamál sem þarf að hugsa og pæla í lengi og vinna vel áður en nokkuð er gert í því. Sem undanfari þeirrar vinnu, ef það verður niðurstaðan, skiptir máli að við tölum um hlutina á sem skýrustum nótum.

Til þess að bregðast aðeins við því sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefnir, að það þurfi endilega að virkja mikið, svo að það sé alveg skýrt, þá erum við í Bjartri framtíð, eins og kemur fram í þessum tillögum, að tala um það sem liggur fyrir í rammaáætlun. Ég hef ekki séð að það þurfi endilega að virkja mikið. Landsvirkjun hefur talað um að hægt sé að setja stærri túrbínur í þær virkjanir sem fyrir eru, svo erum við náttúrlega að tala um rafmagn sem við erum ekki að nýta. Þetta er öðruvísi rafmagn en það sem fer í álver sem þarf að vera stöðugt. Þetta er það sem safnast saman og við getum ekki selt og erum ekki að selja núna. Þetta er það sem safnast saman í lónunum sem er svo hægt að hleypa fram að vild. Þetta er óstöðug raforka sem stóriðja getur ekki nýtt núna. Stóriðja þarf rafmagn sem er stöðugt. Við erum að tala um ólíka hluti.

Þetta er partur af því sem við þurfum að ræða hér. Ég er bjartsýn á að það gangi vel og verði á uppbyggilegum nótum.