143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að ætla að taka málið upp í forsætisnefnd. Ég held að það sé mjög góð hugmynd, sem hér hefur verið nefnd, að starfsáætlun þingsins verði endurskoðuð og jafnvel settir á nefndadagar til að hægt sé að vinna með þessi þingmannamál. Ég veit að hv. forsætisnefnd og virðulegur forseti Alþingis er okkur sammála um að það eykur ekki virðingu Alþingis að verið er að mæla fyrir málum sem ekki fást afgreidd en síðan kemur hingað skafl sem á að keyra í gegn fyrir áramót. Það mun ekki auka virðingu Alþingis og við vitum að það er ekki stefna virðulegs forseta Alþingis að þannig verði það. Ég þakka því virðulegum forseta fyrir að ætla að taka þetta upp í forsætisnefnd og vænti þess að forseti taki þetta líka upp með þingflokksformönnum.