143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

um fundarstjórn.

[12:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Bara út af orðum hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins vil ég segja að það eru alls ekki einungis þingsályktunartillögur lagðar hér fram. Það eru lögð fram frumvörp sem flutt eru af þingmönnum og það sem við leggjum að áherslu á er að þau verði þá afgreidd út úr nefndum og komist hingað aftur inn. Þess vegna er þessi hugmynd komin fram um að starfsáætlun þingsins verði endurskoðuð í ljósi þess hvað við erum út af fyrir sig heppin með að þetta komist allt á dagskrá.

Ég sakna svo sem ekki neinna frumvarpa frá ríkisstjórninni enda held ég að það sé ekki mjög mikið tilhlökkunarefni fyrir mig að sjá þau. Ég geri samt sem áður ráð fyrir að tíma verði krafist af mér og veru í þinginu til að ræða þau. Það sem við erum kannski að segja er að það er svolítið illa með tíma okkar farið ef ekki á svo að afgreiða þau frumvörp til enda sem nú eru lögð fram og talað fyrir.