143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að fjármálastofnanir gegna lykilhlutverki í gangverki efnahagslífs hverrar þjóðar. Þær eru farvegur fyrir þá fjármuni sem almenningur, fyrirtæki og opinberir aðilar þurfa að nota, hvort sem er til að mæta daglegum útgjöldum eða vegna fjárfestinga til lengri tíma. Bankar og önnur fjármálafyrirtæki varðveita og ávaxta einnig tímabundið fjármuni sem þessir aðilar þurfa ekki að nota um sinn og þótt þetta sé sú birtingarmynd sem við sjáum alla jafna á starfsemi fjármálafyrirtækja hafa rannsóknir sýnt að hagsæld í einstökum ríkjum er mjög háð því hvernig að þessum fyrirtækjum, sérstaklega bönkum, er staðið.

Bankar eru líka sérstakir fyrir þær sakir að margir ólíkir hópar hafa hag af starfsemi þeirra. Það hvernig til tekst í rekstri banka hefur þýðingu fyrir þá sem fara með efnahagsstjórn landsins. Aðrir sem eiga þarna hagsmuni eru til dæmis eigendur bankanna, lánadrottnar þeirra, fjárfestar sem sýsla með fjármálagerninga, starfsmenn, skuldarar bankanna og innstæðueigendur.

Ég hef þennan formála á vegna þess að ég hef í mörg ár haft áhyggjur af óhóflegri skattlagningu á sparifé landsmanna. Þannig hefur fjáreignatekjuskattur verið tvöfaldaður frá árinu 2009, fjársýsluskattur er kominn til, auðlegðarskattur er kominn til og þetta hefur leitt til þess að á fjögurra og hálfs árs tímabili, frá 1. janúar 2009 til 1. september 2013, hafa verðtryggð innlán einstaklinga í bönkum og sparisjóðum lækkað um 11% á ári, samtals um 40%. Ég tel að við séum komin að hættumörkum. Því miður er ekki brúkaður skjávarpi í þingsal, en hér á þessu blaði sem ég sýni ykkur er skattlagning með auðlegðarskatti og (Forseti hringir.) forsendan er verðbólga og vextir — (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég áskil mér rétt til þess að útskýra þetta síðar.