143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi vekja athygli á umræðunni um heilbrigðismál. Mikil og þörf umræða hefur farið fram hér í þinginu, meðal starfsfólks Landspítalans, í fjölmiðlum og hvar sem er um stöðu Landspítalans og heilbrigðismála en mér þykir hlutur landsbyggðarinnar svolítið hafa gleymst en þar eru vandamálin ekki síðri.

Við fengum töluvert marga tölvupósta frá læknanemum. Mér sýndist þeir flestir ætla að vinna á Landspítalanum í framtíðinni en fæstir úti á landsbyggðinni. Það er nokkuð sem við þurfum að hafa áhyggjur af.

Ég tek undir að sú umræða sem hefur farið fram um Landspítalann er nauðsynleg og er ekki að draga úr mikilvægi hennar og mikilvægi þess að við endurnýjum Landspítalann og lögum ástandið þar. Staðan er einfaldlega sú að niðurskurðurinn í heilbrigðismálum á landsbyggðinni byrjaði fyrir hrun. Við erum með dæmi um heilbrigðisstofnun sem hefur þurft að þola 26% niðurskurð. Við heyrðum í ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar hér áðan að ekki gengur allt of vel að laga samgöngur við þá heilbrigðisstofnun.

Í kjölfarið á þessum niðurskurði hafa sjúkraflutningar um landið aukist töluvert og nú heyrum við stöðuga umræðu um stöðu sjúkraflutninga á landinu. Ég tala nú ekki um hjúkrunarheimilin þar sem við höfum rætt mikið hreppaflutninga fólks út af stöðu hjúkrunarheimila.

Til að bregðast við þessu held ég að við þurfum að búa til heildstæða áætlun í heilbrigðismálum áður en endurnýjun á húsakosti Landspítalans hefst, rétt eins og við höfum lagt svo vel af stað með í löggæslumálum. Sú vinna er nú þegar farin að hafa mikil áhrif. Ég held við ættum að líta til þess í heilbrigðismálum.