143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það skiptir vissulega máli hve margir eru á launum að vinna að starfi sinna flokka. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því en fyrst hv. þm. Birgir Ármannsson hefur miklar áhyggjur af því er eitt sem við getum gert og við getum kannski sammælst um að fara í þá vinnu.

Í dag eru fjárframlög til stjórnmálaflokka í samræmi við kjörfylgi þeirra, þ.e. þeir fá fjármuni í samræmi við fylgi þeirra. Píratar voru með 5,1% fylgi í kosningunum og fá, ég veit ekki hvað verður, kannski 15 milljónir á ári, flokkurinn, meðan Sjálfstæðisflokkurinn fær töluvert miklu meira og getur þar af leiðandi sinnt starfi sínu miklu betur í flokknum. Spurningin er hvort við eigum ekki bara að jafna þetta, flokkar fengju jafn mikil fjárframlög til að geta sinnt starfi sínu, og gera það jafnvel þannig að það fjárframlag miðist ekki við fylgi, það miðist bara við að hægt sé að reka flokk. Það þarf eitthvert lágmarksfjármagn til að reka flokk. Það hefur sýnt sig í starfi smárra flokka. Það þarf að hafa einhvern starfsvettvang og eitthvert húsnæði. Það þarf að hafa framkvæmdastjóra í fullu starfi og svo hálft stöðugildi í ofanálag. Þá ertu orðinn nokkuð vel settur með rekstur stjórnmálaflokks. Það er eitt, hvort við eigum þá ekki bara að jafna fjárframlög til flokkanna, annað er hvort við gætum ekki lækkað þau að sama skapi og sparað nokkrar milljónir.

Í ofanálag svaraði þingmaðurinn því ekki hvort við ættum ekki bara að fara í það að breyta stjórnarskránni þannig að ráðherrar sitji ekki á þingi.