143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

bætt ímynd Alþingis á samfélagsmiðlum.

119. mál
[12:08]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp og lýsa einskærri gleði yfir því hvernig forseti tekur í þetta mál. Það er greinilegt að hann hefur skoðað þetta, þessi þingsályktunartillaga kemur ekki á óvart. Fólk hugsar á sömu nótum og það er mjög gott.

Mig langar svo að árétta það sem kemur fram í tillögunni að sú kynslóð sem meðal annars ég tilheyri — það eru kannski ekki allir af eldri kynslóðinni sem skilja það, þótt það sé svolítið óþægilegt að viðurkenna það hér í ræðustól, hvað Facebook spilar stóran þátt í lífi minnar kynslóðar, þetta er fyrsti staðurinn sem maður dettur inn á á netinu og maður nær sér í upplýsingar þaðan. Þetta er þægileg leið til að gera það. Nethegðun hefur breyst á þann veg að menn nenna ekki að smella mörgum sinnum með músinni þannig að eftir því sem þægilegra er að nálgast upplýsingar, því líklegra er að maður nái í þær. Ef maður þarf að stíga mörg skref, eins og á hinni ágætu heimasíðu Alþingis, eru meiri líkur á að maður hætti og fari að gera eitthvað annað.

Þetta er mikilvæg leið til að komast í tengsl við fólkið og ég er ánægð með þessar undirtektir.