143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

sjúkraflutningar á landsbyggðinni.

[15:25]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að velta aðeins upp sjúkraflutningum sem hafa verið töluvert mikið í umræðunni og fyrst og fremst snúið að sjúkraflutningum á stórhöfuðborgarsvæðinu og á Akureyri hefur mér fundist. Nú er svo komið að það á að segja upp og leggja, að mig minnir, níu bílum úti á landsbyggðinni þar sem oft er um víðfeðm svæði að fara. Í fjárlaganefnd hafa komið áhyggjufullir fulltrúar sveitarstjórna sem telja öryggi íbúa sinna ógnað. Ég get tekið undir með þeim. Heima hjá mér á að leggja niður bíl sem er svokallaður mannaður sjúkraflutningabíll. Einhvers staðar held ég að ég hafi heyrt hæstv. heilbrigðisráðherra halda því fram að ekki ætti að leggja niður slíka bíla og spyr hann þá hvort það sé meiningin.

Það er sem sagt búið að segja upp mjög víða sjúkraflutningamönnum og í Ólafsfirði hefur það verið gert, þeir eru fjórir þar og þeim hefur verið sagt upp. Það þýðir að útkallstími lengist líklega um 20–25 mínútur og það er mikið þegar oft er um erfiða vegi er að fara. Ég bendi ykkur á að í Fjallabyggð eru þrenn jarðgöng þar sem áhættan er töluvert mikil. Meðal annars þurfti slökkviliðið að útbúa sig enn betur vegna þessa. Þar hefur ferðamannastraumurinn aukist gríðarlega mikið og því eðlilegt að fólk óttist þetta. Þar erum við með menntaskóla, grunnskóla, þar er ferðast á milli alla daga. Mig langar að velta því upp með hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji að oft sé verið að kalla sjúkrabíla út að tilefnislausu, hvort hægt sé að fækka þeim. Er eðlilegt að sinna millistofnanaflutningum með sjúkraflutningabílunum eða getum við gert það á einhvern annan hátt?