143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

sjúkraflutningar á landsbyggðinni.

[15:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki þær tölur á takteinum að ég geti upplýst það hér og nú hversu miklir sjúkraflutningar eru eftir mismunandi svæðum. Ég veit það þó að á höfuðborgarsvæðinu eru þeir um 24 þúsund á ári, en ég man ekki einstakar tölur varðandi hin mismunandi svæði landsins.

Ég held að það sé einboðið að fara í gegnum þennan pakka aftur. Það eru uppi aðrar aðstæður í heilbrigðismálum í dag en voru árið 2010 og 2011 þegar þessar tillögur voru í mótun. Ég tel í rauninni fullt tilefni til að yfirfara allar þessar áætlanir. Aðstæður eru breytilegar.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir að jarðgöng ramma inn byggðina í Ólafsfirði á báða vegu og þær athugasemdir sem Ólafsfirðingar hafa gert við þessi áform eru sjálfsagt fyllilega lögmætar. Ég ítreka að ég á eftir að fara í gegnum þetta allt saman, en ég þekki Ólafsfirðinga frá fyrri tíð af því að vera ákaflega (Forseti hringir.) staðfasta í því sem þeir berjast fyrir.