143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[15:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það sem vekur athygli mína við þessa umræðu er að hæstv. ráðherra vísar í þau rök að aukningin sem sett var í samkeppnissjóði, Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð, hafi verið byggð á svokallaðri fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar, og vissulega er það rétt. Áhugavert er að lesa fjárlagafrumvarpið þar sem margoft er sagt að allar forsendur fyrir þeirri fjárfestingaráætlun séu brostnar og endurtekið eins og trúarleg mantra í rauninni í fjárlagafrumvarpinu þegar staðreyndin er sú að annars vegar er stór hluti þessara tekna að skila sér. Það nægir bara að nefna rúmlega 10 milljarða arð úr Landsbanka Íslands sem er að skila sér til ríkisins sem og arð úr öðrum ríkisfyrirtækjum sem skilar sér til ríkisins og þá staðreynd sem síðan er reynt að skauta yfir í fjárlagafrumvarpinu og reynt að nefna ekki í þessum umræðum að það var ákvörðun núverandi meiri hluta og hæstv. ríkisstjórnar að falla frá hækkun á sérstöku veiðigjaldi sem m.a. var ætlað að fjármagna þessa hækkun.

Því er ekki hægt að koma hér alltaf upp og tala um það að forsendur hafi brostið þegar í raun og veru stór hluti af þessum tekjum annars vegar skilaði sér og hins vegar var það sjálfstæð ákvörðun að falla frá því að afla þessara tekna. Tekin var sjálfstæð ákvörðun um að afsala almenningi þeim tekjum. Þess vegna er lögð til 265 millj. kr. lækkun á Rannsóknasjóði, þess vegna er fallið frá 200 millj. kr. á markáætlun og það er þess vegna sem önnur eins lækkun er lögð til í Tækniþróunarsjóð. Það er ástæðan. Þetta er meðvituð ákvörðun og ekki er hægt að tala eins og eitthvað óvænt hafi komið upp á.

Ég tel þetta ranga forgangsröðun hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn því að það er vel kunnugt alls staðar, hvert sem litið er, að fjárfesting í rannsóknum og fjárfesting í hugviti skilar samfélögum hagvexti, hún skilar samfélögum hagvexti sem er ekki bundinn við takmarkaðar auðlindir heldur byggist á hugviti. Mér finnst leitt að sjá núverandi ríkisstjórn rjúfa þá sátt sem hér hefur ríkt um að efla einmitt samkeppnissjóðina. Hér hafa allir verið sammála um að nauðsynlegt sé að efla þá og ef ég man rétt (Forseti hringir.) fögnuðu þingmenn núverandi stjórnarflokka því sérstaklega (Forseti hringir.) að sú áhersla væri lögð, að þetta væri þó (Forseti hringir.) að minnsta kosti eitthvað sem hægt væri að sameinast um, en það (Forseti hringir.) er greinilega ekki lengur.