143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[16:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Það er alveg ljóst að við deilum framtíðarsýninni. Hæstv. ráðherra talaði hér fyrir mikilvægi rannsókna, nýsköpunar og vísindastarfsemi. Það gerðu líka hv. þm. Framsóknarflokksins sem tóku þátt í umræðunni og hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar. En yfirlýsingar af því tagi eru bara einskis virði ef ekki fylgir aukið fjármagn. Það er ekki hér í þingsalnum sem fólk á að vera með innihaldslausar þjóðhátíðarræður. Það er hér sem á að fylgja ákvörðuninni eftir með fjármagni, með raunverulegum vilja. Hæstv. menntamálaráðherra hefur nú skilað af sér meiri niðurskurði í sínu ráðuneyti en nokkur annar ráðherra og skorar örugglega vel í sínum þingflokki með því að gera það.

Málið er að það sem blasir við hér er pólitísk forgangsröðun. Hvað gerðist? Hagur stórútgerðarinnar er í meiri forgangi en hagur samkeppnissjóðanna. Það er svo einfalt. Stjórnarmeirihlutinn kippti sjálfur tekjuforsendunum undan fjárfestingaráætluninni. Það gerði enginn annar. Það gerðu ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir.

Sá hluti sem er til umræðu var í fyrri hluta fjárfestingaráætlunarinnar sem var beintengd sérstöku veiðigjaldi, beintengd þeirri upphæð sem þar var. Þau verkefni sem eru til umræðu, tiltekin samgönguverkefni og sóknaráætlanir landshlutanna — ríkisstjórnin ákvað sjálf að afsala sér þeim tekjum sem áttu að fara til verkefnanna og hún skal sjálf bera ábyrgð á því og þeirri stöðu sem upp er komin.

Þetta var forgangsröðunin. Ég hef áhyggjur af því, virðulegur forseti, að sú forgangsröðun og pólitíska sýn sem endurspeglast hér sé í raun (Forseti hringir.) og veru að boða hik sem sé afdrifaríkara en svo (Forseti hringir.) að vísinda- og rannsóknarumhverfið þoli það. (Forseti hringir.) Ég spyr enn hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra: Hvar er vonin?(Forseti hringir.)