143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[16:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Vonin felst í því að okkur takist að koma efnahagslífinu af stað, auka fjárfestingar þannig að hér verði hagvöxtur, tekjur ríkisins aukist þannig að umtalsvert megi teljast. Vandinn er sá að staðan í ríkisfjármálum var ekki bara einhver spurning um bókhald varðandi fjárfestingaráætlunina, það sem blasti við samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins í vor var að staðan á þessu ári yrði miklu verri en lagt var upp með og skeikaði þar jafnvel tugum milljarða. Á næsta ári, árinu 2014, stefnir líka í alveg gríðarlegan halla ef ekkert verður að gert. Fjárfestingaráætlunin er einungis einn hluti af því.

Einnig lá fyrir, virðulegi forseti, og það er augljóst öllum þeim sem hér til þekkja, að það gjald sem átti að leggja á sjávarútveginn hefði aldrei innheimst eins og reyna átti að gera. Það hefði valdið stórkostlegum skaða í íslensku efnahagslífi og dregið þar með úr hagvaxtarmöguleikum þessarar þjóðar. Allir þeir sem skoðuðu þetta mál þekkja það og hafa borið um það vitni.

Hér hefur verið talað um að það ætti að troða á sprotum en þá er rétt að horfa á tölurnar. Á undanförnum árum hefur framlagið til þessa sjóðs hlaupið frá 815 millj. kr. árið 2009, 2012 í 782, 2013 í 1.305 og verður nú 1.135 verði þetta frumvarp að lögum. Það er allur niðurskurðurinn. Menn verða að setja þetta í samhengi liðinna ára, virðulegi forseti.

Þegar talað er um innihaldslausar þjóðhátíðarræður má spyrja sig hvers virði séu innihaldslaus loforð um aukningu þegar menn standa frammi fyrir stöðu ríkissjóðs eins og þessi ríkisstjórn gerði, bæði hvað varðar uppgjör þessa árs og ég tala nú ekki um næsta ár. Það hefði verið fullkomið ábyrgðarleysi að neita að horfast í augu við þá stöðu. Það var gert og það er rétt að hafa það í huga þegar horft er til þróunarinnar hvað þennan sjóð varðar. Ég endurtek: Árið 2012 var talan 782 milljónir, (Forseti hringir.) árið 2014 er hún 1.135. Það er rétt að hafa (Forseti hringir.) þetta í huga, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) þegar menn skoða þessar tölur. (Gripið fram í: Eigum við ekki að ræða innstæður …?)