143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framhaldsskóladeildir.

108. mál
[16:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda, Steingrími J. Sigfússyni, fyrir þessa fyrirspurn. Fyrri hluti hennar er þessi:

Hv. þingmaður spyr hverju það sæti að ráðuneytið hafi ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til framhaldsskóladeildar á Vopnafirði í fjárlagatillögum sínum árið 2014.

Því er til að svara að í fjárlagatillögunum fyrir árið 2014 var þeirri meginreglu fylgt að ekki yrði veitt fé til nýframkvæmda eða nýrra verkefna. Þannig stendur það, virðulegi forseti. Það er auðvitað ekkert ljúf eða auðveld ákvörðun en ég held að hún hafi verið sú rétta. Áherslan sem lögð var þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram sneri að því að ekki yrði skorið meira niður í rekstri framhaldsskólans, ekki yrði farið inn í reksturinn og dregnir frá honum fjármunir. Það var það grunnstef sem lagt var upp með.

Það þýddi síðan að taka þurfti þá fjármuni annars staðar til þess að mæta niðurskurðarkröfu og fresta ýmsum nýframkvæmdum, t.d. eins og varðandi verknámshúsið fyrir Fjölbrautaskólann á Suðurlandi, því var slegið á frest. Það þarf enginn að efast um að það er mikilvæg framkvæmd sem styrkja mun skólastarfið á Suðurlandi öllu, en henni var slegið á frest. Sama gildir um framhaldsdeildina á Vopnafirði. Því verkefni hefur verið frestað. Ekki hefur verið lagt til fjármagn vegna þess að það fellur undir það sem sagt var áðan, þ.e. nýframkvæmdir sem við ákváðum að leggja til að yrði frestað.

Hvað varðar aðgengi að námi á framhaldsskólastigi í heimabyggð held ég við séum öll sammála um að við viljum hafa það sem best og reyna jafnt og þétt að byggja upp þá þjónustu þannig að sem mestir möguleikar verði til þess að ungmenni geti stundað nám í heimabyggð. Það skiptir máli, í það minnsta fram til 18 ára aldurs, sem ég mundi leggja áherslu á.

Ég held að það sé enginn munur á stjórnmálaflokkum hvað þetta varðar, við erum sammála um þá niðurstöðu.

Enn og aftur: Við stóðum frammi fyrir því að aðhaldskröfu var beint að okkur. Ég vildi ekki draga úr fjárframlögum til framhaldsskólastigsins í heild. Ég vildi ekki gera aðhaldskröfu á reksturinn vegna þess að það var einfaldlega búið að ganga það fast að rekstri framhaldsskólanna að ekki hefði verið verjandi að draga úr fjárframlögum til reksturs þeirra. Þá urðu ný verkefni að bíða og skera þurfti niður annars staðar. Þannig er heildarhugsunin í þessu.

Vissulega þýðir þetta, eins og í því máli sem hér er til umræðu varðandi Vopnafjörð eða varðandi Fjölbrautaskólann á Suðurlandi og ýmsar aðrar framkvæmdir sem svo sannarlega eiga rétt á sér og eru mikilvægar, að það verður að bíða aðeins. Það er ekki þar með sagt að búið sé að slá þær af með nokkrum hætti en við þurfum að hafa betra svigrúm í ríkisfjármálunum. Það er meginefni svars míns, virðulegi forseti.