143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framhaldsskóladeildir.

108. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en þó ekki síður allmörgum þingmönnum góðar undirtektir og stuðning við málið, þ.e. betra aðgengi að námi á framhaldsskólastigi í heimabyggð.

Það sem vakti athygli mína í svari ráðuneytisins til Vopnafjarðarhrepps var að þetta væri ekki inni í fjárlagatillögum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Það var sem sagt ekki sagt nei í fjármálaráðuneytinu, heldur setti ráðuneytið þetta ekki inn í fjárlagatillögur sínar. Þá er auðvitað ekki von á því að þetta sé í fjárlagafrumvarpinu.

Ég kaupi ekki alveg það svar sem nógu gilt að það hafi verið vinnuákvörðun að hleypa engu nýju af stað. Ja, hvað hefðu menn þá ekki mátt segja 2009 þegar framhaldsskólinn í Ólafsfirði var að fara af stað eða þegar framhaldsdeildir voru að fara af stað í miklu erfiðari stöðu í ríkisfjármálum? Það var samt gert vegna þess að það er mikilvægt að einhver framþróun sé líka í gangi. Og þó að það væri ekki nema ein eða tvær framhaldsdeildir sem menn sæju sér færi á að setja í gang á hverju ári, að þetta kæmi yfir á nokkrum árum, væri það strax ljós í myrkrinu.

Ég nefni Vopnafjörð sérstaklega vegna þess að þar eru aðstæður mjög sambærilegar við Þórshöfn, það er um mikla fjallvegi að fara til næstu framhaldsskóla, svipaðir þéttbýliskjarnar að stærð, og allar forsendur fyrir því að starfið gæti gengið vel í samstarfi við þá sem væntanlega yrðu framhaldsskólarnir á Austurlandi. Ég verð að skora á ráðherrann að endurskoða hug sinn í þessum efnum sem og fjárlaganefnd Alþingis miðað við þær undirtektir sem hér hafa komið. Það eru ekki svo stórir fjármunir sem þarf til að styðja við verkefnin og halda utan um þau vegna þess að nemendurnir væntanlega og vonandi verða hvort sem er í framhaldsskólakerfinu og nemendaígildi greidd fyrir þá. Munurinn er bara sá að þeir eiga kost á námi í heimabyggð með miklu minni kostnaði og meira félagslegu öryggi fyrsta árið eða fyrstu tvö árin. Það er það sem vinnst með litlum fjármunum með því að koma framhaldsdeildunum af stað. Það má ekki líta svo á að allur kostnaðurinn falli til í viðbót, (Forseti hringir.) heldur flyst hann til með þessum hætti. Það sem þarf að leggja af mörkum er umsjónin, 5–10 milljónir með hverju verkefni. Við erum ekki svo aum, hæstv. menntamálaráðherra. Það er metnaðarlítið (Forseti hringir.) að segja bara: Nei, ekkert nýtt.