143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Ljósleiðaravæðing, betri samgöngur, þriggja fasa rafmagn um allt land og síðast en ekki síst fjarkennsla eru að mínu mati grundvallarþættir í því að efla landsbyggðina og gera búsetu þar eftirsóknarverðari. Þessi atriði eru öll mikilvægir hlekkir í því að mögulegt sé að þróa og efla atvinnulíf á svæðum sem oft og tíðum er of einhæft. Unga fólkið sækir í fjölbreyttari störf en bjóðast í dreifðari byggðum og ef við ætlum að stemma stigu við fólksfækkun, sérstaklega á þeim svæðum sem skilgreind eru sem brothættar byggðir eins og Skaftárhreppur, verðum við að leggja áherslu á að byggja þessa mikilvægu innviði upp. Því fyrr, því betra.

Mig langar að gera fjarkennslu að umtalsefni mínu í dag. Þegar ég leitaði á vefnum Google að framboði á fjarkennslu á Íslandi kom upp langur listi mér til mikillar gleði og ánægju. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu eru fjarnámsdeildir framhaldsskóla starfræktar á sex stöðum; í Búðardal, á Patreksfirði, Hvammstanga, Hólmavík, Blönduósi og Þórshöfn. Háskólarnir hafa brugðist við með auknu framboði á fjarnámi og hefur fjöldi nemenda í fjarnámi margfaldast á síðustu árum, úr 307 nemendum árið 1997 yfir í 2.959 árið 2011.

Undanfarna mánuði hafa framkvæmdir verið í gangi við náms- og kennsluver á vegum Fræðslunetsins á Suðurlandi og Háskólafélagsins á Kirkjubæjarklaustri. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að vera viðstödd opnun kennsluversins í síðustu viku. Þangað mætti fólk úr sveitinni og nærsveitum og maður skynjaði sterkt hversu mikilvæg slík starfsemi er. Aðstaðan er til fyrirmyndar en þar munu sex til átta nemendur geta stundað nám samtímis. Ég vil nota tækifærið og óska íbúum í Skaftárhreppi innilega til hamingju með kennsluverið.

Mennt er máttur. Fjarkennslusetur eru mikilvæg til að byggja upp samfélagslega innviði á landsbyggðinni, eins og atvinnu- og menningarlíf. Mannauðurinn eykst og samfélagið verður ríkara.