143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Seint í síðustu viku mátti lesa fréttir um framgöngu ESA gegn íslenskum stjórnvöldum vegna banns við innflutningi á hráu kjöti. Íslensk stjórnvöld taka nú til varna og afar mikilvægt er að þau vandi málatilbúnað sinn sem best. Því miður gerðist það slys að Ísland skyldi ekki strax við upphaf innleiðingar að breyttri löggjöf, matvælalöggjöf, sækja fram með undanþágu vegna áhættu af því að hingað geti borist sjúkdómar með hráu kjöti. En ekki þýðir að gráta það nú.

Um þýðingu þess að beita slíku banni verður ekki fjölyrt hér en aðeins sagt að ekki er á nokkurn hátt hægt að gera lítið úr varnaðarorðum þeirra sem vara við áhættunni, hún er raunveruleg, hún er ekki fundin upp til þess að beita í einhverju verndarstríði fyrir landbúnaðarframleiðslu hér. Nægir þar að nefna greinar og erindi prófessors Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýklafræðideild Landspítalans, og fleiri þar sem kemur skýrt fram hve gríðarlega miklu máli skiptir að okkur takist að verja þá sjúkdómastöðu sem er hér á landi til heilla fyrir lýðheilsu og ekki síst fyrir heilbrigðiskerfið okkar.

Fáar forvarnir eru jafn mikils virði og mikilvægar og varnir gegn sýklum og örverum sem geta borist fyrir mistök með hráu kjöti hingað til lands. Þeim sjúkdómstilfellum fjölgar nú hratt og einstök á heimsvísu er sú staðreynd að notkun á sýklalyfjum í íslenskum landbúnaði sker sig algjörlega úr í samanburði við önnur lönd. Það staðfesta opinberar tölur um samanburð á milli landa. Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál.

Forseti. Þetta rifja ég upp í dag ekki síst vegna þess að frá því að innleiðing hófst á matvælalöggjöfinni hér um árið hefur orðið algjör hugarfarsbreyting. Ég vil minna á að við gerð samningsafstöðu við 19. kafla í ESB-aðildarviðræðum tókst fullkomin pólitísk samstaða um að beita sér fyrir því að áfram verði bannað að flytja hingað inn lifandi dýr og hrátt kjöt.