143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur hefur fylgst með þjóðmálaumræðu um þó nokkurn tíma en mig rekur ekki minni til þess að hafa heyrt fyrr forustumann í íslensku atvinnulífi eða forustumann samtaka hvetja beinlínis til lögbrota eins og framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu gerði í sjónvarpinu á dögunum þegar hann hvatti menn „til að láta reyna á lögmæti þess að flytja inn hrátt kjöt til Íslands“.

Samkvæmt því sem forustumenn Samtaka verslunar og þjónustu segja gengur þeim það eitt til að lækka vöruverð á Íslandi, sem er göfugt markmið. Í sama skyni hafa þeir kallað eftir því að vörugjöld yrðu lækkuð. Það sem vantar hins vegar upp á málflutninginn er hvað þeir vilja gera sjálfir til að lækka almennt vöruverð á Íslandi. Ég get af mikilli auðmýkt og hógværð bent þeim á nokkrar fullkomlega löglegar leiðir til að lækka vöruverð hér á landi.

Í fyrsta lagi gætu þeir dregið úr óhóflegum afgreiðslutíma sem kostar stórfé. Þeir gætu sem best dregið saman húsnæðiskostnað vegna þess að hér á landi eru líklega fleiri fermetrar í verslun en nokkurs staðar annars staðar á byggðu bóli. Samkvæmt því sem hefur komið fram nýlega um afkomutölur stærstu fyrirtækja í þessum bransa og samkvæmt því sem fram hefur komið um að skuldsetning verslunar er minni nú en um árabil gætu þeir líka gripið til þess óyndisúrræðis að lækka álagninguna sína, ef hugur fylgir máli um að þeir vilji almennt lækka vöruverð. Það er náttúrlega eitt af stærstu hagsmunamálum íslensks almennings.

Þangað til að slíkar tillögur koma fram en ekki hálfkveðnar vísur um lögbrot er ekki hægt að taka þetta fólk alvarlega, herra forseti, því miður.