143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (ber af sér sakir):

Herra forseti. Ég vil ekki að það liggi eftir í þingtíðindum sem kom fram í áburði eins af forustumönnum stjórnarliðsins á hinu háa Alþingi að ég hafi í bók, sem ég sannarlega gengst við að hafa skrifað en hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins sannanlega hefur ekki lesið, borið forseta lýðveldisins sökum eða ráðist á hann. Mér þykir miður að heyra slíkt.

Hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir er að vísu sjaldséðari en hvítir hrafnar í þessum þingsal og þess vegna er miður og sorglegt að tilefni hennar til að heiðra okkur með návist sinni skuli vera að fara í árásir af þessu tagi. Ég hef verið vinur forseta lýðveldisins í 30 ár. Það hafa stundum verið uppstyttur í þeirri vináttu en við erum vinir áfram.

Það er alveg ljóst að í þeirri bók, sem ég vona að hv. þingmaður lesi í fyllingu tímans, er ekkert sem gefur tilefni til þessara ályktana. Að því er varðar ásakanir hennar um landsdóm tel ég mig í hópi þeirra manna sem hefur (Forseti hringir.) ekkert að skammast sín fyrir í þeim efnum.