143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[14:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þessar umræður minna mig svolítið mikið á olíu á Drekasvæðinu. Ég vara við því að fara í það enn og aftur sem kallast glópagullsumræða. Ástæðan fyrir því að ég segi það er að til dæmis er að finna í þessari ágætu skýrslu, sem ég er ekki búin að lesa endanna á milli en mun gera því að mér finnst þetta merkilegt, margt sem stangast á. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa hér upp af blaðsíðu 88 um félagshagfræðileg áhrif:

„Mikilvægt er að huga að mögulegum félagshagfræðilegum áhrifum af lagningu sæstrengs, svo sem því hversu miklar tekjur sala raforku skapar, hvernig þær tekjur dreifast og hvernig þær skila sér til samfélagsins. Augljóst má telja að raforkuverð til heimila og smærri fyrirtækja muni hækka með tilkomu sæstrengs“ — takið eftir þessu — „og þar með tengingar við raforkumarkað Evrópu. Ætla má að framkvæmdin muni auka tekjur Landsvirkjunar verulega og þar með væntanlega arðgreiðslur fyrirtækisins til ríkissjóðs, þó að það sé í sjálfu sér ekki sjálfgefið. Þannig skapast tekjur sem nýta má til uppbyggingar velferðarkerfis og til að jafna þau neikvæðu áhrif sem fylgja hækkandi raforkuverði, með sérstakri áherslu á þá sem breytingin hefði mest áhrif á, svo sem lítil fyrirtæki sem nota tiltölulega mikla raforku, íbúa á köldum svæðum þar sem raforka er notuð til hitunar o.s.frv. Það er hins vegar engan veginn sjálfgefið að þessar væntanlegu auknu tekjur ríkissjóðs skili sér til þeirra sem hækkun raforkuverðs leggst þyngst á. Því er hugsanlegt að tilkoma sæstrengsins leiði til hærri útgjalda meginþorra almennings, án þess að það skili sér í betri opinberri þjónustu. Jafnvel þótt arðurinn skili sér til ríkissjóðs, kann hann að verða eftir hjá tiltölulega fáum einkaaðilum. Þessu fylgja neikvæð samfélagsleg áhrif sem birtast í ójafnari tekjuskiptingu en áður. Fræðilega séð er hægt að koma í veg fyrir þessi áhrif, en útilokað“ — takið eftir því — „er að tryggja slíkt fyrir fram. Niðurstaðan ræðst af pólitískum ákvörðunum sem oft eru teknar undir verulegum þrýstingi frá fáum en stórum hagsmunaaðilum.“

Mér finnst mjög mikilvægt að allir hér inni lesi þennan litla bút hérna vel og vandlega. Við vitum að skattumhverfi okkar er svo flókið að ef við ætluðum að fara að leiðrétta hækkandi orkuverð til almennings með einhverju skattaskítamixi eru mjög litlir möguleikar á að það skili sér til fólks.

Þetta er risastór framkvæmd og það er mjög skiljanlegt að við viljum fá hærra verð fyrir raforkuna okkar, ég hef alltaf verið talsmaður þess. Væri samt ekki nær að við nýttum betur og fengjum meira fyrir orkuna sem við höfum nú þegar?

Fjöldinn allur af fyrirtækjum vill hýsa gögnin sín á Íslandi af því að þau vilja borga meira fyrir grænu orkuna vegna þess að það lítur svo vel út fyrir þau. Það er mjög slæmt að alls konar fyrirtæki eins og álfyrirtækin geri okkur að hráframleiðslulandi eingöngu, en af hverju leggjum við ekki meiri áherslu á að skapa umhverfi þannig að unnið sé úr þessum hrávörum hérlendis, hvort sem það er fiskur, ál eða eitthvað annað?

Við erum í gjaldeyrishaftaveseni og eigum lítið af gjaldeyri — af hverju notum við ekki tækifærið og lækkum orkuverðið fyrir þessa umframorku til grænmetisframleiðenda sem hafa því miður mjög margir farið halloka í hruninu? Mér finnst mikilvægt að við önum ekki hratt út í þetta. Mér finnst skýrslan vera gott innlegg og ég vona að við vinnum hana vel og nýtum okkur þær upplýsingar sem er að finna í henni.