143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:29]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Sú umræða sem farið hefur fram hér í dag er að mörgu leyti ágæt. Ég hef sjálfur, svo að maður útskýri persónulegt viðhorf sitt til málsins, sveiflast dálítið í skoðunum gagnvart því. Ég hef stundum verið fylgjandi því að farið verði í rannsóknir á þessum möguleika en stundum mjög andvígur því að gera þetta. Ég hef nálgast viðfangsefnið sem umhverfisverndarsinni og haft af því áhyggjur sem slíkur að þetta geti leitt til þess að menn leiðist út í einhvers konar óhóf í virkjunarframkvæmdum og svo aftur sveiflast til baka og séð fyrir mér að það sé alls ekki sjálfgefið að svo verði heldur geti þetta þvert á móti orðið til þess að menn láti staðar numið og segi að nú sé nóg komið.

Drifkrafturinn í virkjunarframkvæmdum á Íslandi hefur alltaf verið þörfin til að skapa ný störf og auknar tekjur af sölu á raforku með sæstreng gætu þýtt að Íslendingar hefðu fjármagn til að styðja undir margvíslega aðra atvinnustarfsemi víðs vegar um landið. Það gæti líka þýtt, miðað við þær tekjuforsendur sem menn gefa sér, sem eru auðvitað á mjög víðu sviði, að menn gætu mætt hækkandi raforkuverði til almennings og fyrirtækja með lækkuðum álögum. Það gæti líka þýtt að menn gætu nýtt tekjurnar til að efla mennta- og velferðarkerfið og heilbrigðisþjónustuna.

Það er því að mörgu að hyggja. Margar mjög gagnlegar upplýsingar koma fram í þessari skýrslu sem gott er að fá. Aðrar ályktanir sem skýrsluhöfundar draga finnast mér nokkuð djarfar og mig langar að tæpa á sumum þeirra. Ég byrja á því sem þar er sagt um að áform um lagningu sæstrengs hljóti að auka mjög þrýsting á byggingu virkjana á Íslandi og að hugsanlegt sé að tilkoma sæstrengsins leiði til hærri útgjalda meginþorra almennings án þess að það skili sér í betri opinberri þjónustu. Einnig sé ástæða til að óttast að útflutningur raforku leiði til lengri tíma litið til óþarfa innflutnings jarðefnaeldsneytis. Þarna er verið að gefa sér að ekkert breytist við þessi áform, að ástandið verði bara nákvæmlega eins og það er í dag. Ef við skoðum reynslu Norðmanna, segir í skýrslunni, hefur reynslan af sölu raforku um sæstreng verið góð, fjárfestingin hefur reynst ábatasöm og hún hefur skilað sér í lægri skattheimtu og í arðgreiðslum til almennings. Norðmenn hafa töluverða reynslu af rekstri sæstrengja og hefur NordNet-strengurinn til Hollands verið arðbær og er annar strengur frá Noregi til Hollands fyrirhugaður.

Ég held að við ættum að horfa til þessarar reynslu og taka mið af henni. Aðstæður eru vissulega ólíkar og við erum að tala um lengri streng en samt sem áður er þarna reynsla sem við ættum að geta dregið lærdóm af. Í umhverfiskafla skýrslunnar finnst mér líka dregin upp mynd í dálítið sterkum litum. Þar segir að umferð vinnuvéla á viðkvæmum strandsvæðum og á hafsbotni valdi töluverðu álagi á gróður og dýralíf og slíkt álag geti orðið til að vissar tegundir yfirgefi þessi svæði eða deyi út ef þær hafi ekki möguleika á að aðlagast trufluninni. Ég held að þetta hljóti nú að vera dálítið mikið í lagt af skýrsluhöfundum að það sé einhver tegund þarna, sem væntanlega býr þá bara í braut þessarar lagningar, sem muni deyja út ef strengurinn yrði lagður. Við skulum hafa í huga að við erum þjóð sem dregur troll, botnveiðarfæri, fram og til baka eftir hafsbotninum í kringum landið tugum ef ekki hundruðum saman á hverjum degi, á hverjum sólarhring. Varla geta verið meiri áhrif af lagningu þessa sæstrengs en af því að draga slíkt botntroll og botnvörpur eftir hafsbotninum. Hér er líka fjallað um að varanleg hækkun hitastigs á hafsbotni geti haft áhrif á æxlun, orsakað lífeðlisfræðilegar breytingar og aukið dánartíðni. Ég er ekki sérfræðingur í þessu en ég þykist vita að svæðið þar sem strengurinn kæmi til með að liggja er mjög afmarkað.

Staðreyndin sem við þurfum að horfa til og þeir ákvörðunarpunktar sem við þurfum að hafa í huga er að endurnýjanleg orka er eftirsótt innan Evrópusambandsins og ríkja þess, ekki síst vegna skuldbindandi markmiða hvers ríkis fyrir sig, samkvæmt reglum þess, um að auka hlutfall hennar í orkunotkun fyrir árið 2020. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að lagning slíks strengs mundi bæta samningsstöðu okkar við Evrópu og samningsstöðu okkar við stóriðjuna og við þau fyrirtæki og þá stórkaupendur á raforku sem við erum að selja nú þegar.

Það sem við þurfum að ákveða er, að mínu mati, fyrst: Hvað er til sölu? Erum við sammála um að verið sé að tala um umframorkuna? Er verið að tala um að fjölga virkjunum eða auka afkastagetu þeirra virkjana sem við ráðum nú þegar yfir? Mitt svar er að við séum fyrst og fremst að tala um umframorkuna og mögulega að auka afköst þeirra virkjana sem við nú þegar ráðum yfir. Hvað fáum við fyrir þessa orku? Það er lykilatriði í þessu. Hverjar eru afleiðingarnar fyrir land og þjóð? Dugar umframorkan til þess að svara þeirri eftirspurn sem er til staðar?

Það er mjög mikilvægt að við hverfum af þeirri braut, sem því miður hefur verið viðloðandi atvinnuuppbyggingu og orkuiðnað á Íslandi, að menn ráðist í dýrar og umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir sem eru umdeildar og kljúfa þjóðina og fái síðan ekki nægilegt verð fyrir þá orku þegar til stykkisins kemur. Við þurfum að gæta þess að endurtaka ekki þau mistök sem of mörg dæmi eru um.