143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa þingheimi tækifæri til að fjalla um þessa skýrslu. Ég tel eins og ráðherrann sagði í ræðu sinni mjög mikilvægt að á þessum tímapunkti reynum við að átta okkur á því í hvaða stöðu við erum og tökum í sameiningu ákvörðun um hvert skuli haldið. Svo ráðherrann fái svar við spurningu sinni um afstöðu einstakra þingmanna getur sá þingmaður sem hér stendur sagt: Við höldum áfram með þetta verkefni, könnum það frekar og búum okkur undir að taka ákvörðun um hvort við ætlum að fara í það eða ekki.

Við Íslendingar vitum að við eigum miklar auðlindir og geta okkar og hæfni til að skapa verðmæti úr þessum auðlindum okkar mun ráða því hvernig okkur tekst að byggja hér upp til frambúðar, hvernig okkur tekst að greiða niður skuldir ríkissjóðs og hvernig okkur tekst að auka lífsgæði íbúa þessa lands til framtíðar.

Eitt af stóru tækifærunum felst í því með hvaða hætti við ætlum að halda utan um auðlindina sem við nýtum til þess að búa til raforku. Við þekkjum það að Íslendingar vinna mesta raforku í Evrópu miðað við íbúafjölda. Við erum reyndar ekkert afskaplega mörg en engu að síður er þetta staðreynd. Við gerum þetta vel. Og við sem sátum ráðstefnuna um norðurskautsmál í Hörpu nú á dögunum, sem forseti Íslands stóð fyrir, Arctic Circle, vitum af áhyggjum heimsbyggðarinnar af hlýnun jarðar. Þess vegna hefur heimsbyggðin öll áhuga á því að nota meira af endurnýjanlegum orkugjöfum og því hafa menn breytt reglum sínum um það hversu mikið hlutfall eigi að koma frá slíkum orkugjöfum.

Við getum því ekki litið svo á að Ísland sé einhver eyja í þessu samhengi. Við þurfum að horfa á heiminn allan og bera ábyrgð á því hvert skuli stefna. Þess vegna tel ég að umhverfisverndarsinnar allra landa hljóti að vera sammála því að skoða tækifærin sem felast í því að nýta og búa til meiri raforku á Íslandi.

Hvað þarf að gera? Við þurfum á næstu árum að fara í frekari greiningu vegna þess að þó að skýrsla ráðgjafarhópsins sé góð og sú umræða sem farið hefur fram sl. sextíu ár, um það hversu gáfulegt sé að leggja raforkustreng til Evrópu frá Íslandi, þá er hún auðvitað ekki tæmandi og við erum ekki komin á þann stað að geta farið strax í framkvæmdir, alls ekki. Við þurfum að meta betur og fara í frekari greiningu á arðsemi verkefnisins vegna þess að í skýrslunni hleypur fyrsta mat á 4–76 milljörðum kr. sem er talsvert mikið bil. Síðan þurfum við að kortleggja betur áhættuþættina. Sá áhættuþáttur sem er kannski stærstur og viðamestur í dag er hvernig muni ganga að viðhalda svo löngum streng því að vissulega yrði þetta lengri strengur en nokkru sinni hefur verið lagður. Af dæmum um bilanir á strengjum sem þessum vitum við að viðhaldið er dýrt og það er dýrt þegar flutningsgetan fellur niður, en tækninni fleygir fram og vísindamenn eru alltaf að finna upp nýjar lausnir og nýjar nálganir sem hægt er að notast við í þessu stóra verkefni.

Annað sem við þurfum að skoða er hverjir helstu samkeppnisaðilarnir eru. Í umræðunni hér hefur komið fram að náttúrulegt gas sé kannski sá orkugjafi sem við eigum að fylgjast svolítið með. Hvernig verður þróunin þar?

Síðan hefur önnur umræða verið svolítið hávær hér á landi, þ.e. hvaða áhrif þetta muni hafa á raforkuverð til íslenskra heimila. Íslensk heimili kaupa um það bil 5% af þeirri raforku sem framleidd er á Íslandi. Við þurfum auðvitað að horfa til þess en ég minni á að stjórnvöld geta haft áhrif á raforkuverð til heimila með því að stjórna því hvaða opinberu álögur eru lagðar á þá orku.