143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[16:05]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir umræðuna. Ég sagði í upphafi að það væri mín einlæga skoðun að næsta skynsamlega skref í málinu væri að kalla eftir aðkomu þingsins, hleypa þinginu milliliðalaust að málinu. Ég er sannfærð um eftir þessa umræðu að við séum á réttri leið með það. Nú fer málið til þingnefndar og þingnefnda og þá fá þingmenn tækifæri til að spyrja spurninga, kalla eftir sjónarmiðum og heyra frá ólíkum aðilum. Það er ekki alger samhljómur í salnum í dag. Umræðan hefur hins vegar verið afar málefnaleg og mér finnst allir vilja vanda sig. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi einmitt sagt í ræðu sinni að hann teldi að menn væru að reyna að vanda sig. Það er einfaldlega það sem við verðum að gera þegar um svona stórt mál er að ræða. Við verðum að passa okkur á því að þetta snúist ekki upp í enn eina þrætuna sem við erum svolítið lagin við að koma okkur í. Málið er miklu mikilvægara en svo. Það snýst um auðlindirnar okkar, um atvinnuna okkar, um raforkuverð, um framtíð okkar hvað þau mál öll varðar. Það er algerlega mín skoðun að við þurfum að ræða málið miklu betur til að geta svarað þessum spurningum.

Ég treysti þinginu vel, og sérstaklega eftir þessa umræðu, til að taka málið áfram og fara í gegnum það. Það hefur verið talað mikið um niðurstöðu ráðgjafarnefndarinnar og ég horfi á hv. þm. Róbert Marshall sem ég held að hafi sagt að skýrslan hafi kveikt fleiri spurningar en hún svaraði, kannski var það ekki hv. þm. Róbert Marshall og þá bið ég forláts. (RM: Ég get tekið undir það.) En hann getur tekið undir það, það er gott.

Þá er verkefnið að halda áfram, spyrja spurninga og leita svara. Þetta hefur verið mjög gagnlegt og svo ég vitni í hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur sagði hún: Menn verða að setja sig inn í þetta flókna viðfangsefni. Ég held að það sé alveg rétt. Við getum ekki eftirlátið hvort sem það er Landsvirkjun, Landsneti eða sérfræðingum með excel-skjöl úti í bæ, eða hvað sem þeir hafa verið kallaðir í umræðunni, að móta þessa framtíðarsýn. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Við þurfum að leggja það á okkur að rýna málið og móta svo í sameiningu stefnu til framtíðar.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir góða og málefnalega umræðu og hlakka til að fylgjast með málinu í umfjöllun þingsins.