143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, að sjálfsögðu þarf að passa að fjármunir almennings fari þangað sem þeir eiga réttilega heima. Ég er bara að hugsa um bótaþegann, ef óvíst er um réttindastöðu hans er hann í mjög erfiðri stöðu fyrst hægt er að stöðva greiðslu til hans á grundvelli vafans, að það sé þá ekki fyrst greitt út og svo gert út um vafann síðar.

Varðandi friðhelgi einkalífsins og Persónuvernd. Þetta frumvarp er bara í 1. umr. og það á eftir að ræða áfram í þinginu. Það sem við rákum okkur á á sumarþinginu var að þá voru lögð fram frumvörp sem Persónuvernd gerði athugasemd við, annars vegar frumvarp um Seðlabankann og hins vegar frumvarp um Hagstofuna. Persónuvernd kom með tillögur um breytingar á því og gerði athugasemdir við að lagafrumvörp eins og þessi væru sett fram þar sem mjög hætt væri við því að þau brytu gegn friðhelgi einkalífs fólks.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki alveg ljóst að þetta frumvarp mun ekki fá afgreiðslu, alla vega ekki með stuðningi hæstv. ráðherra hérna á þinginu án þess að Persónuvernd gefi umsögn um endanlega útgáfu frumvarpsins um að það brjóti ekki í bága við friðhelgi einkalífsins, sem er stjórnarskrárvarin?