143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerð hans fyrir þessu máli.

Aðeins örfá orð um það. Hér er um að ræða ýmis efnisatriði sem voru til umfjöllunar á sumarþinginu og voru kannski þeir þættir þess máls sem þá var flutt sem þörfnuðust nokkurra úrbóta við sem og lengra og vandaðra ferlis umfjöllunar en þá var kostur á að hafa. Málið var þess vegna ekki afgreitt á því þingi og kemur hér aftur inn og sem betur fer nokkuð breytt ef marka má orð hæstv. ráðherra.

Markmiðið er ákaflega verðugt, það að draga úr bótasvikum sem eru algerlega óþolandi athæfi. Það er mikilvægt að stjórnvöld hafi þau tæki sem til þarf til þess að koma í veg fyrir alla slíka viðleitni. Um leið er málið flókið viðfangs og mikilvægt að hv. velferðarnefnd sem það fær til umfjöllunar taki það til mjög vandaðrar málsmeðferðar, gefi góðan tíma til umsagnar, leiti sjónarmiða sem flestra og yfirfari efnisatriði málsins mjög gaumgæfilega.

Einn þáttur málsins lýtur að persónuverndinni og þar er ákaflega mikilvægt að heimildirnar séu mjög nákvæmlega skilgreindar, þær séu ekki opnar og treyst á almenna þagmælsku eða góða háttsemi opinberra embættismanna í þeim efnum. Þar þarf að ganga fram af mikilli nákvæmni gagnvart friðhelgi einkalífsins eins og hér hefur verið nefnt og ég veit að hæstv. ráðherra hefur leitast við. Ég heyri hjá ráðherranum að tekið hefur verið tillit til allra athugasemda Persónuverndar og þannig búið er málið miklu betra en það var þegar það kom hér inn í sumar.

Í öðru lagi þarf að gæta að því að fólk sem er í nauðum statt og er að leita eftir stuðningi samfélagsins í erfiðri stöðu þurfi ekki að bíða lon og don eftir því að stjórnvaldinu þyki það hafa nægar upplýsingar eða hafa skoðað málið nægilega vel. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að allir þeir frestir sem heimilað verður að taka í afgreiðslu mála séu skammir og mjög nákvæmlega skilgreindir og að réttur notandans til að áfrýja slíku eða sækja slíkt þannig að tryggt sé að mál fólks sem sannarlega er í nauðum statt og þarf alvarlega á því að halda, sín vegna og jafnvel fjölskyldu sinnar vegna, að njóta fjárhagsstuðnings samfélagsins geti aldrei dankast á einhverju skrifborði af því að ekki sé tími til að athuga þau. Í því sambandi verðum við að hafa í huga að það snýst ekki bara um hversu vandaðir embættismenn eiga í hlut heldur verður að hafa í huga að Tryggingastofnun hefur haft mjög takmörkuð fjárráð og mannaforráð til að sinna slíku eftirliti. Þó að í starfsfólkinu og stjórnendum þeirrar stofnunar, eins og margra annarra, sé mikill metnaður til að sinna þessum hlutum vel eru ekki alltaf aðstæður til að gera það þannig að viðunandi sé. Oft verða til biðlistar eða þjónusta er ekki nægilega góð vegna þess að það er einfaldlega skortur á fé og fólki. Það er mikilvægt að vegna slíks þurfi fólk ekki að bíða langtímum saman eftir afgreiðslu á jafn mikilvægri aðstoð og þessi er.

Í þriðja lagi, vegna þess að vísað er til annarra tekna, vil ég hvetja nefndina og hæstv. ráðherra til að skoða sérstaklega nefnda leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar þegar kemur að greiðslum fólks úr almannatryggingakerfum þeirra landa sem hér er oft vísað til, nágrannalanda okkar, Norðurlandanna. Greiðslur sem æ fleiri hafa úr almannatryggingakerfum annars staðar á Norðurlöndunum hafa áhrif á bætur fólks hér. Það að sækja þau réttindi getur verið býsna flókið og tafsamt og lítinn stuðning fyrir fólk að fá í því. Á stundum hefur það þess vegna veitt ófullnægjandi upplýsingar vegna þess að það hefur ekki haft aðstöðu til að afla þeirra upplýsinga sem þarf að afla frá nágrannalöndum okkar. Ef á að gera kröfu um að þær upplýsingar séu fullnægjandi er mikilvægt að Tryggingastofnun veiti lið í því að afla þeirra upplýsinga hjá systurstofnunum sínum, enda í miklu betri færum til að gera það en einstaklingar sem standa í þokkabót stundum beinlínis höllum fæti í því að sækja slíkar upplýsingar, annaðhvort vegna fötlunar eða aldurs.