143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að segja að hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir sé að leggja fram frumvarp viljandi til þess að brjóta friðhelgi einkalífsins, engan veginn. Ég held að menn hugsi ekki mikið um það þannig, þeir eru bara að reyna að ná ákveðnum markmiðum, yfirleitt mjög góðum markmiðum, en leiðirnar sem þeir fara eru oft ekki alveg úthugsaðar enda koma málin inn til þingsins síðar. Aftur á móti erum við með stofnanir í samfélaginu sem eru sérfræðingar á þessu sviði og er falið að vernda friðhelgi einkalífsins. Nú hefur þingið tvisvar sinnum frá því það var kosið hunsað álit þeirrar stofnunar og mögulega, að minnsta kosti, tekið þá áhættu að með því að samþykkja þau lög sé það að brjóta friðhelgi einkalífs landsmanna sem við þingmenn erum eiðsvarnir til að verja. Það er ástæðan fyrir því að ég vek upp þessa umræðu um frumvarpið.

Ég vona að hv. þm. Eygló Harðardóttir komi hér upp og geri grein fyrir því hvernig hún lítur á þetta mál út frá persónuverndarvinklinum og hvort hún muni greiða atkvæði með frumvarpinu ef það brýtur friðhelgi einkalífsins eða Persónuvernd segir að hætta sé á því að verið sé að brjóta friðhelgi einkalífsins.