143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

lögfesting Norðurlandasamnings um almannatryggingar.

22. mál
[16:50]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér er unnið að lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar sem undirritaður var 12. júní 2012 þar sem reynt er að samræma að nokkru þær reglur og þá hluti sem fjalla um almannatryggingar á þessu svæði. Í vaxandi mæli hafa komið upp vandamál í sambandi við framkvæmd ýmissa samninga á milli Norðurlandanna með tilkomu inngöngu nokkurra Norðurlanda í Evrópusambandið. Við höfum lent í því sem þjóð að einstök ríki og jafnvel einstök svæði innan landanna hafa túlkað samningana sem áður voru á milli Norðurlandanna og látið Evrópusambandssamningana hafa forgang.

Þetta verður ekki leyst akkúrat með þessu máli en engu að síður er tæpt á því hér. Jafnvel þó að viljinn til að samræma lög á Norðurlöndunum sé ekki þannig að menn vilji búa til ein lög um almannatryggingar, enda forsendur mjög ólíkar, er þess getið í nefndaráliti — og ég fagna því — að auðvitað þurfi að vinna stöðugt og jafnt að því að fjarlægja sem flestar landamærahindranir sem nú eru í gangi á milli Norðurlandanna. Eins og ég segi hafa menn verið að leysa þá hnúta jafnóðum og þeir hafa komið upp en við urðum vör við það í ráðuneytinu áður. Það var sérstök umræða á síðasta kjörtímabili um svokallaðar landamærahindranir þar sem fram kom gríðarlega mikil gagnrýni á útfærslu á einstökum þáttum almannatrygginga eða tengdra samninga eins og varðandi fæðingarorlof og réttindi námsmanna þar sem jafnvel einstök svæði, t.d. í Svíþjóð, túlkuðu lögin og samningana með ólíkum hætti. Það kostaði mikla baráttu hjá Öryrkjabandalaginu, samtökum námsmanna og annarra slíkra, hjá ráðuneytinu, Tryggingastofnun og víðar að fylgja því eftir að við nytum þeirra réttinda sem við töldum að gerðir hefðu verið samningar um.

Erindi mitt í ræðustól var fyrst og fremst að þakka hv. velferðarnefnd fyrir góða vinnu og gott nefndarálit. Hér hefur komið fram að óskað hefur verið eftir því að þessu máli verði hraðað. Um það hefur náðst þverpólitísk samstaða og ég fagna því.