143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir greinargóða framsögu. Andsvar mitt er ekki til þess ætlað að hrekja málstað hans enda er ég einn af flutningsmönnum tillögunnar. Mér er sjálfum þannig farið að ég efaðist lengi um skynsemi þess að fara þá leið að byggja nýjan spítala og auðvitað hugsaði maður um marga hluti: Er hægt að ráðast í svona stóra fjárfestingu? Ég efaðist líka um staðsetninguna, hvort hún væri skynsamleg.

Þegar öllu er á botninn hvolft verður svo á ákveðnum tímapunkti uppbyggingunni ekki frestað lengur. Stundum verður maður að játa sig sigraðan þó að maður haldi að maður hafi meira vit á staðsetningu eða einhverjum öðrum þáttum en allir aðrir og viðurkenna að verkefninu verður einfaldlega ekki frestað lengur. Ég hef sannfærst um að það skipti höfuðmáli að til að búa almennilegar starfsaðstæður fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og til að gera okkur mögulegt að hafa landspítala sem þjóðarspítala í fremstu röð sé nauðsynlegt að byggja nýtt húsnæði.

Hv. þingmaður hefur mikið kannað þetta mál og farið yfir það en maður heyrir oft í umræðunni efasemdir um að það sé rétt að ráðast í þetta verkefni núna, það sé hvort sem er svo langt í að einhver árangur verði af framkvæmdinni. Ég spyr: Ef ráðist yrði í framkvæmdina núna, hvenær telur hv. þingmaður að við sæjum raunverulegan árangur í bættri aðstöðu á Landspítalanum? Segjum að menn mundu hefjast handa nú um áramót.