143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum fyrir þessa þingsályktunartillögu. Við þingmenn Bjartrar framtíðar höfum ítrekað, líkt og margir aðrir þingmenn, kallað eftir svörum stjórnvalda við þeirri spurningu hvort fara eigi í uppbyggingu á Landspítalanum, hvenær það verði gert og hvernig. Mér finnst stjórnvöld ekki hafa talað alveg skýrt í þessum efnum.

Ég hef heyrt þær áhyggjur af landsbyggðinni að bygging nýs spítala og endurbætur muni soga til sín allt fjármagn. Mér finnst alveg ástæða til að taka þær áhyggjur alvarlega en ég vil helst ekki að við séum að stilla þessu máli upp sem höfuðborg andspænis landsbyggð. Það hlýtur að létta á Landspítalanum ef heilbrigðisþjónustan er góð úti um allt land og að sama skapi er Landspítalinn mjög mikilvægur fyrir okkur sem búum úti á landi. Við sækjum þjónustu á Landspítalann þegar einhver bráðatilfelli koma upp eða ef gera þarf flóknar aðgerðir þannig að Landspítalinn er spítali allra landsmanna. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum það í huga. Hvort sem við erum höfuðborgarbúar eða landsbyggðarbúar þá eru það sameiginlegir hagsmunir okkar að Landspítalinn grotni ekki niður og það að heilbrigðisstarfsfólk sæki í störf erlendis vegna þess að það treysti sér ekki til að vinna á spítalanum. Hvort framkvæmdin á að vera opinber eða fjármögnuð með öðrum hætti hlýtur bara að vera rætt í nefndinni. Ég hef enga sérstaka skoðun á því á þessu stigi málsins.

Ég vona að þingsályktunartillagan fái ítarlega meðferð í nefndinni og að við fáum sem fyrst niðurstöðu um hvernig við ætlum að haga uppbyggingu Landspítalans. Við vitum öll að sú uppbygging verður ekki umflúin og þeirri óvissu sem ríkir um Landspítalann þarf að eyða sem fyrst.