143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi að menn ættu að fara varlega í hvers kyns gjaldskrár- og skattahækkanir. Hann kynni að hafa verið að beina orðum til sjálfs sín en sem kunnugt er valda gjaldahækkanir í fjárlagafrumvarpinu 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs. Það er auðvitað full ástæða fyrir stjórnarmeirihlutann að velta því fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegra að beina skattalækkunum í þann farveg að hækka ekki þá skatta, eins og t.d. bensínskatta og olíuskatta, sem hafa bein áhrif á neysluverð. Þá ákvörðun tókum við einmitt um síðustu áramót þegar skapaðist dálítið svigrúm í ríkisfjármálunum og féllum frá ýmsum vísitöluhækkunum sem höfðu verið fyrirhugaðar á þess háttar gjöld.

Sömuleiðis er full ástæða fyrir stjórnarmeirihlutann vegna þeirra viðkvæmu kjarasamninga sem hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt að skoða fram komnar tillögur Alþýðusambandsins um aðra útfærslu á lækkun tekjuskatts en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þar er gert ráð fyrir því að skattar lækki um 0,8% hjá öllum sem eru í millitekjuþrepi, þ.e. lækki ekki hjá þeim sem lægst hafa launin og lækki þeim mun meira að krónutölu eftir því sem fólk hefur hærri tekjur. Það er auðvitað sérlega ósanngjarnt gagnvart fólki með meðaltekjur og lágar tekjur og þess vegna leggur Alþýðusambandið til að þeir 5 milljarðar verði frekar notaðir til að hækka mörkin á lægsta þrepinu upp í 350 þús. kr. á mánuði þannig að allir þeir sem eru með 350 þús. kr. eða minna séu í lægra þrepi og að tekjuskattur þeirra sem eru í millitekjuþrepinu lækki samsvarandi mikið. Það kæmi betur út fyrir alla þá sem hafa minna en þingfararkaup á mánuði (Forseti hringir.) en að sjálfsögðu lakar fyrir þá sem hafa þingfararkaup eða þaðan af meira.