143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[15:39]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir tækifærið til að ræða aðeins um Norðurlandasamstarfið og formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Við munum taka við formennsku um næstu áramót og ég vil gjarnan nota tækifærið hér í upphafi að kynna í stuttu máli þær áherslur sem ég hef lagt fyrir norrænu samstarfsráðherrana og tekist hefur samkomulag um að verði í fyrirrúmi á formennskuárinu.

Hæstv. forsætisráðherra hefur þegar mælt fyrir formennskuáætlun okkar á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Ósló í liðinni viku og ber yfirskriftina Gróska – lífskraftur.

Áður en ég fer nánar yfir hana vil ég segja nokkur orð um fjármögnun norræna ríkisstjórnarsamstarfsins. Norrænu fjárlögin 2013 nema um 1 milljarði danskra kr. Framlag landanna til þeirra er ákveðið samkvæmt sérstakri skiptireglu sem byggir á hlutdeild hvers lands í samanlögðum vergum þjóðartekjum miðað við framleiðsluverð tveggja síðustu ára þar sem upplýsingarnar liggja fyrir. Ég vona að allir hafi náð þessu. Samkvæmt þessari reglu er hlutdeild Íslands í ár 0,7% eða um það bil 150 millj. íslenskar kr. Þess má geta að framlagið er látið renna óskipt til reksturs Norræna hússins í Reykjavík en auk þess fær húsið framlag af norrænum fjárveitingum menningarmálaráðherranna og verður framlag Íslands óbreytt á næsta ári.

Í ár var tekin upp mikilvæg nýbreytni í norrænu fjárlögunum þegar samstarfsráðherrarnir ákváðu að setja á laggirnar myndarlegan formennskusjóð sem það land sem fer með formennsku hefur frumkvæði um að ráðstafa. Skilyrði er að um sé að ræða fá en pólitísk mikilvæg verkefni sem geta náð yfir allt að þrjú ár. Verkefnin þurfa enn fremur að fela í sér nýsköpun og vera þverlæg. Að minnsta kosti þrjú lönd þurfa að koma að þeim og þau þurfa að geta af sér norrænan virðisauka. Formennskusjóður Íslands er 45 millj. danskra kr. sem dreifist í jöfnum greiðslum á tímabilinu 2014–2016. Fyrir þessar breytingar gat formennskulandið sótt um verkefnastyrki í sjóð sem var um það bil 5 millj. danskra kr. og var skilyrði að upphaf og endir verkefnanna væri innan formennskutímabilsins. Það eru því allt önnur skilyrði sem okkur eru búin á formennskuárinu á næsta ári en áður hefur tíðkast hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Á næsta ári hleypir Ísland af stokkunum þremur stórum verkefnum sem eru öll til þriggja ára og verður formennskusjóðnum varið til fjármögnunar þeirra. Þau voru valin eftir víðtækt samráð við ýmsa fulltrúa í Norrænu ráðherranefndinni og embættismannanefndum, kynnt og samþykkt í ríkisstjórn Íslands fyrr á þessu ári og loks samþykkt á fundi norrænu samstarfsráðherranna sl. sumar.

Stærsta verkefnið ber heitið Norræna lífhagkerfið. Í raun er um að ræða regnhlífarverkefni sem mun rúma fjölda afmarkaðra verkefna með sama markmið, þ.e. að byggja upp öflugt norrænt lífhagkerfi til hagsbóta fyrir umhverfi og samfélag. Ég viðurkenni að fyrst þegar ég heyrði þetta þá vafðist eilítið fyrir mér hvað væri nákvæmlega verið að tala um en með mikilli einföldun er markmiðið að nýta betur en nú er gert lífrænar auðlindir okkar, draga úr sóun og álagi á umhverfi og finna leiðir til að skapa ný verðmæti. Umhverfis- og auðlindaráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti verða í aðalhlutverki við framkvæmd verkefnisins. Auk þess munu stofnanir á borð við Matís, Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun og fleiri koma að verkefninu. Samsvarandi ráðuneyti og stofnanir á Norðurlöndunum verða samstarfsaðilar auk samnorrænna stofnana. Það er mjög mikill áhugi á þessu verkefni á Norðurlöndunum.

Verkefnið hefur einnig ríka alþjóðlega skírskotun og hefur t.d. Evrópusambandið mótað sér stefnu í þessum málum og má einnig benda á herferð Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna gegn sóun á matvælum. Talið er að þriðjungur daglegrar matvælaframleiðslu í heiminum endi á sorphaugum á meðan milljónir manna svelta heilu hungri. Við það má svo bæta að mannfjöldaspár gefa til kynna að með sama áframhaldi muni heimurinn ekki geta brauðfætt jarðarbúa í framtíðinni.

Þá má einnig nefna að umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, sem voru veitt í síðustu viku, féllu í skaut dönsku baráttukonunnar Selinu Juul sem stofnaði hreyfinguna Stop spild af mad, með leyfi forseta, Hættum að fleygja mat. Hún beitir sér fyrir hugarfarsbreytingu meðal almennings um betri nýtingu á mat og gegn óþarfa sóun á matvælum. Hugsjónir Selinu Juul falla þannig vel að markmiðum verkefnisins um norræna lífhagkerfið.

Ég vil einnig nefna verkefnið Biophilia sem verður hluti af Norræna lífhagkerfinu. Það byggir á hugmyndum söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur. Um er að ræða kennslufræðilegt verkefni þar sem tónlist og tækni eru tvinnuð saman á nýstárlegan hátt til að örva skynjun og áhuga barna á náttúrufyrirbærum og eðlisfræði.

Á næsta ári verður 10 millj. danskra kr. varið til verkefnisins um Norræna lífhagkerfið.

Annað verkefni sem ég vil nefna hér er verkefnið Norræna velferðarvaktin. Það byggir á því úrræði sem sett var á laggirnar hér á landi í kjölfar bankahrunsins 2008 og kreppunnar sem fylgdi í kjölfarið. Öll hafa norrænu ríkin einhvern tíma þurft að glíma við kreppuástand og við teljum nauðsynlegt að greina að getu velferðarkerfisins til að bregðast við skyndilegum áföllum. Með verkefninu er ætlunin að greina m.a. þau viðbrögð sem gripið var til í kjölfar fyrri krepputímabila á Norðurlöndum, sjá hvaða aðgerðir tókust vel, hvað tókst síður vel og hvaða áhrif það hafði að aðhafast ekki neitt. Byggist það meðal annars á því sem við gerðum hér eftir hrun þegar við leituðum t.d. til Finna og lærðum af reynslu þeirra af kreppu. Einnig snýst það um að búa til svokallaða norræna velferðarvísa sem mæla ástand velferðar og hæfileika kerfisins til að bregðast við. Verkefninu verður stýrt af velferðarráðuneytinu en ráðherranefnd um félags- og heilbrigðismál ber ábyrgð á norræna vísu. Framlag til verkefnisins á næsta ári hefur verið ákveðið 3 millj. danskra kr.

Norræna velferðarvaktin er einnig mjög gott innlegg í annað umfangsmikið norrænt verkefni sem nýlega var hleypt af stokkunum í samræmi við áherslur norrænu forsætisráðherranna og nefnist Sjálfbær norræn velferð. Því verkefni munum við sinna áfram á formennskuári okkar en það á að standa yfir á tímabilinu 2013–2015.

Ég vil líka nefna að nú er verið að vinna á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar mjög merkilegt starf sem miðar að því að afmarka enn frekar möguleika til samstarfs milli Norðurlandaþjóðanna í heilbrigðismálum á næstu fimm til tíu árum, sem ætlunin er að kynna á miðju formennskuári, þ.e. næsta sumar, og beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu. Ég tel okkur einmitt hafa mjög mikil tækifæri til að vinna mun nánar saman á sviði heilbrigðismála og í raun velferðarmála í heild á norrænum vettvangi.

Þriðja formennskuverkefnið er af nokkuð öðrum toga en þau sem ég hef þegar fjallað um hér. Um er að ræða menningarverkefni þar sem skapandi greinum er gert hátt undir höfði. Norræni spilunarlistinn hefur verið í mótun undanfarin ár en það er útflutningsmiðstöð norrænnar tónlistar, Nomex, sem stýrir verkefninu og sér um framkvæmd þess. Að baki Nomex eru útflutningsmiðstöðvar tónlistar á Norðurlöndum og er Útón fulltrúi Íslands. Markmiðið með verkefninu er að nýta nútímatækni í fjölmiðlun, þ.e. samfélagsmiðla og netmiðla, til að koma norrænni tónlist á framfæri jafnt innan Norðurlanda og utan og auka þar með útflutningsmöguleika hennar. Undirbúningur undir verkefnið er kominn vel á veg. Búið er að hanna heimasíðu á netinu þar sem það besta og efnilegasta í norrænni popptónlist verður aðgengilegt á einum stað. Samstarfi hefur þegar verið komið á við stórar tónlistarveitur á borð við Spotify og Wimp og viðræður eru í gangi við bandarískar tónlistarveitur.

Norræni spilunarlistinn fer á veraldarvefinn í byrjun formennskuárs okkar en þess má geta að í tengslum við verkefnið er stefnt að eins konar uppskeruhátíð norrænnar popptónlistar í því landi sem fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Slík hátíð yrði haldin í fyrsta skipti árið 2015 og munu þá Danir taka við formennsku í ráðherranefndinni. Þeir hafa þegar lýst sig reiðubúna til að koma að undirbúningi og hafa umsjón með hátíðinni.

Við höfum mikla trú á þessu verkefni enda er það mjög vel kynnt á Norðurlöndunum og nýtur mikils velvilja. Það ætti auk þess að vera til þess fallið að höfða til ungra Norðurlandabúa og líka þeirra sem telja sig vera ungir í anda og efla tiltrú þeirra á norrænt samstarf almennt. Á næsta ári verður 2 millj. danskra kr. varið í Norræna spilunarlistann en markmiðið er að sjálfsögðu að hann verði sjálfbær þegar norrænum stuðningi við hann lýkur.

Virðulegi forseti. Ég hef hér stiklað á stóru í formennskuáætlun okkar í Norrænu ráðherranefndinni og þeim málum sem við teljum brýnt að tekist sé á við í samstarfinu. Ég vil hins vegar líka nefna nokkur önnur mikilvæg samsarfsverkefni sem við munum koma að varðandi framkvæmdina því að samhliða því að við tökum við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni sem snýr að samstarfsráðherrum þá tökum við líka við formennsku í öðrum ráðherranefndum, þ.e. fagnefndunum svokölluðu.

Eitt af þeim verkefnum sem okkur hefur verið falið er að koma af stað breytingum varðandi norrænt samstarf um afnám stjórnsýsluhindrana. Þegar hefur verið fjallað um það á Norðurlandaráðsþinginu. Ég held að tækifærin séu mörg og að spennandi verði að takast á við þetta stóra verkefni. Hugsunin á bak við norrænt samstarf er náttúrlega að draga úr hindrunum til að fólk og fyrirtæki geti farið á milli landa og starfað óáreitt.

Það mun koma í okkar hlut að hleypa stjórnsýsluhindrunarráðinu af stokkunum. Ég hef þegar falið Siv Friðleifsdóttur, fyrrverandi alþingismanni, fyrrverandi samstarfsráðherra Norðurlandanna og fulltrúa Alþingis í Norðurlandaráði um árabil, að leiða það verkefni. Gert er ráð fyrir nýju fyrirkomulagi og aukinni áherslu á það hvernig við getum unnið að því að ryðja úr vegi stjórnsýsluhindrunum í gegnum ráðherranefndirnar. Þar þurfum við að horfa á vinnumarkaðinn, almannatryggingakerfið og menntamálin sem lykilatriði til að koma á opnum og sameiginlegum vinnumarkaði á Norðurlöndunum.

Ég vil líka nefna hér nýja samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar við Eystrasaltsríkin, Rússland, Barentssvæðið og gagnvart Hvíta-Rússlandi sem tekur gildi 1. janúar næstkomandi. Hins vegar hefur það verið þannig að þegar við höfum farið með formennsku í ráðherranefndinni höfum við alltaf leitast við að beina áherslum á samstarf til vesturs og á norðurskautssvæðinu. Það munum við einnig gera nú. Á formennskuárinu verður t.d. haldin ráðstefna um stöðu kynjanna á norðurslóðum og aðkomu þeirra að stefnumótun og ákvarðanatöku í málum er varða samfélagslega hagþróun. Einnig er í undirbúningi samstarfsverkefni norrænu sendiráðanna í Kanada um að halda sameiginlega menningarhátíð í Toronto út frá því sem gert var í Bandaríkjunum undir nafninu Nordic Cool.

Að lokum, virðulegi forseti. Svæðasamstarf Norðurlandanna er eitt það elsta sinnar tegundar í heiminum og er litið á það sem fyrirmynd fyrir önnur svæði. Innbyrðis samstarf Norðurlandanna nýtur mikils fylgis meðal íbúa landanna og í raun meira fylgis en t.d. samstarf Evrópuríkjanna innan ESB. Við erum mjög lánsöm að taka þátt í þessu samstarfi og við fáum margfalt til baka það sem við leggjum í það.

Ég vil nefna hér að lokum (Forseti hringir.) að á formennskuári okkar stöndum við frammi fyrir því að norrænu fjárlögin hafi verið skorin niður um 5% og frekari niðurskurður er boðaður árið 2015 og 2016. (Forseti hringir.) Það er skoðun mín og skoðun ríkisstjórnarinnar að við ættum frekar að auka framlag til norræns samstarfs en að skera það niður. Það verður því ákveðið verkefni að reyna að tala samstarfsþjóðirnar á okkar band í þeim efnum.