143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að hefja mál mitt á að vitna í nýja hagspá hagdeildar ASÍ þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt nýrri hagspá hagdeildar ASÍ er dauft yfir íslensku efnahagslífi. Hagvöxtur verður lítill næstu árin og dugar ekki til að vinna bug á atvinnuleysi eða byggja upp þann kaupmátt sem launafólk tapaði í hruninu.

Ein helsta skýringin á því hve erfiðlega gengur að auka verðmætasköpun þjóðfélagsins eru litlar fjárfestingar.“

Því fór ég fram á þessa umræðu hér. Hér er spurt um framtíðarsýn og stefnu. Yfirskrift umræðunnar er fjárfestingaráætlun. Ef ekki með henni, hvernig á að örva atvinnulífið, efla fjölbreytni, búa til störf, auka hagvöxt? Það er orðið að sérstakri möntru í þinginu, sérstaklega meðal þingmanna stjórnarmeirihlutans, að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar hafi ekki verið fjármögnuð. Og punktur. Og ekki neitt. En þessi mantra er ekki alveg rétt. Það var búið að setja fjármagn í marga þá hluta fjárfestingaráætlunar sem skipta miklu máli.

Mig langar aðeins til þess að grípa niður í tilurð fjárfestingaráætlunarinnar, vegna þess að við undirbúning hennar var byggt á fyrirliggjandi stefnumótun stjórnvalda í ríkisfjármálum, efnahagsmálum og Ísland 20/20. Samkvæmt því eins og frá segir á heimasíðu forsætisráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Kveikjuna að gerð þessarar fjárfestingaráætlunar má meðal annars rekja til hugmynda sem Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, kom á framfæri við forystu ríkisstjórnarinnar undir lok síðasta árs“ — þ.e. ársins 2012. „Voru hann og Heiða K. Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, höfð með í ráðum í upphafi vinnslunnar og við lok hennar.“

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom að framkvæmd áætlunarinnar í gegnum ráðherranefnd um atvinnumál. Alls voru gerðar tillögur um verkefni sem leiddu af sér fjárfestingu fyrir um 88 milljarða kr., þar af var gert ráð fyrir því að 39 milljarðar yrðu fjármagnaðir úr fjárfestingaráætluninni. Fjármögnunin var tvíþætt. Annars vegar 17 milljarðar sem áttu að koma af sérstöku veiðigjaldi á þremur árum, hins vegar 22 milljarðar sem áttu að koma af arði og eignasölu hluta ríkisins í bönkum.

Hér í ræðustól var nefnd talan 10 milljarðar úr Landsbankanum nú í vikunni. Þarna voru gríðarlega merkileg verkefni á ferðinni. Sóknaráætlun landshluta upp á 3,6 milljarða, skapandi greinar upp á 2,8 milljarða, Kvikmyndasjóður upp á 1,4, ferðaþjónusta upp á rúma 2 milljarða. Að baki mörgum þessara verkefna lágu að baki gríðarlegar rannsóknir. Nú er öllum þessum verkefnum sópað út af borðinu.

Þá er spurt: Hvers vegna? Af hverju öllum? Það eru til fjármunir til að ráðast í sum af þessum verkefnum. Ef menn vilja ekki fara í þessi verkefni, hvernig ætla þeir að örva hagkerfið, auka fjölbreytni, efla samkeppni, laða að fjárfestingu?

Hvað eru menn að segja við hinar dreifðu byggðir annað en, ja, eltið kindur og gerið að þorski? Það er ekki neikvætt og er það sem við höfum að mörgu leyti byggt á, en við þurfum á miklu fjölbreyttari atvinnustarfsemi að halda. Það var hugsunin sem bjó að baki fjárfestingaráætlun.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Eftir hvaða plani er unnið til að ná þessum markmiðum ef ekki fjárfestingaráætluninni? Voru engar hugmyndir í fjárfestingaráætlun nægilega góðar til að núverandi ríkisstjórn gæti treyst sér að ráðast í þær? Það hlýtur að vera einhver hluti þarna sem hægt er að fara í nú þegar því við þurfum svo sannarlega á því að halda. Allar horfur benda til þess og segja okkur það.

Ég vil fyrir hönd míns flokks, Bjartrar framtíðar, bjóða okkur fram til að taka þátt í þeirri vinnu alveg eins og við gerðum með síðustu ríkisstjórn og reyna að koma hér hlutum í gang. Nógu oft var sagt á síðasta kjörtímabili að ekkert væri að gerast. Kannski er ekki alveg rétt að segja það núna, en það (Forseti hringir.) er ekki nóg að gerast.