143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar hv. málshefjandi Róbert Marshall spyr spurningarinnar: Hvernig á að efla fjárfestingu og örva atvinnulíf? er hægt að svara: Það er alveg skýr stefna af hálfu þessarar ríkisstjórnar að það gerist ekki með því að íþyngja atvinnulífinu með aukinni skattlagningu. Menn geta bent á það að menn hafi misst af einhverjum veiðigjöldum sem voru í hendi en það hefur alla tíð og var allt síðasta kjörtímabil skýrt tekið fram af hálfu núverandi stjórnarflokka að þeir trúðu ekki á að þessi skattlagning væri sjálfbær.

Hvernig getum við gert þetta? Með því að skapa stöðugt umhverfi, skapa umhverfi fyrir atvinnulífið til að það örvist, til að það fari sjálft í hinar stóru fjárfestingar sem þörf er á og að hingað til lands laðist erlendir fjárfestar sem eru tilbúnir að byggja upp öfluga atvinnustarfsemi á Íslandi.

Við getum alveg séð áhrifin af breytingunum sem núna eru í pípunum. Við getum horft á íslenskan sjávarútveg þar sem fjárfesting var með allra minnsta móti á síðasta kjörtímabili, kannski kringum 5 milljarðar á ári að meðaltali, þegar talið er að þörf greinarinnar sé allt að 25 milljarðar á ári. Við sjáum að nú er farið að tala um að færa aukin þjónustuverkefni sjávarútvegsins heim til Íslands. Það er farið að tala um að endurvekja stálskipasmíðar á Íslandi. Þessi umræða er komin í allt annan farveg þegar menn sjá fram á breyttar forsendur og einhvern stöðugleika í framtíðinni, hóflega, skynsamlega skattlagningu þannig að þeir geti farið í þær fjárfestingar sem bíða.

Við sjáum það sama í ferðaþjónustunni. Sennilega hefur ekki nokkru sinni verið meira talað um stórar fjárfestingar í ferðaþjónustu en núna. Skyldi það eiga einhverjar rætur í því hvað ferðaþjónustan horfir á að umhverfið er orðið stöðugt? Það var hætt við skattahækkanir á ferðaþjónustuna. Það var meðal annars talað um að stórt hótel sem ætti að byggja við Hörpu hefði verið slegið af á sínum tíma, m.a. vegna þeirrar óvissu sem skapaðist út af skattlagningu á greinina.

Svona getum við lengi talið. (Forseti hringir.) Það er hægt að fara yfir orkufrekan iðnað sem er þriðja grunnstoðin (Forseti hringir.) undir samfélaginu. Nákvæmlega sömu aðstæður eru uppi á þeim vettvangi.