143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

nauðungarsölur.

[10:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Stjórnvöld þurfa að leita allra lagalegra leiða til að koma í veg fyrir að heimili landsmanna séu sett á nauðungarsölu meðan landsmenn bíða eftir niðurstöðu dóma um lögmæti verðtryggingar, sem Hæstiréttur hefur sent fyrirspurn um til EFTA-dómstólsins, og skuldalækkunar ríkisstjórnarinnar.

Sá sem tekur að sér stöðu innanríkisráðherra hefur líka tekið sér þetta hlutverk. Það er alveg skýrt. Viðkomandi hefur tekið sér þau völd og þá ráðherraábyrgð sem fylgir. Þess vegna spyr ég hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur: Hver er staðan í málum er varða eignarrétt lántakenda? Ætlar hæstv. innanríkisráðherra að hefja dómsmál til varnar heildarhagsmunum lántakenda til að fá úr því skorið hvort dómur Evrópudómstólsins fyrir ári síðan eigi við hér á landi? Hæstv. innanríkisráðherra hefur sagst þekkja þann dóm ágætlega og að ekki sé víst hvort hann eigi við á Íslandi en þar af leiðandi eru möguleikar á að hann eigi einmitt við á Íslandi. Þá er spurningin: Ætlar hún að skoða hvort hann eigi við hér á landi? Í dómnum sagði að ekki mætti vísa fólki út af heimilum sínum án dómsúrskurðar um lögmæti lánanna sem á þeim hvíla. Þá er spurningin: Hvað tefur ákvörðun innanríkisráðherra um hvort hún ætli að skoða þetta mál?

Ég vil líka spyrja: Hvað, ef eitthvað, getur innanríkisráðherra gert til að koma í veg fyrir ólögmætar nauðungarsölur Dróma? Fjármálaeftirlitið hefur gert alvarlegar athugasemdir við aðgerðir Dróma. Hvað getur innanríkisráðherra gert? Getur hún virkilega ekkert gert? Eru engar valdheimildir sem innanríkisráðherra hefur til að verja heimili landsins í þessum málum?