143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

dýrasjúkdómar og varnir gegn þeim.

139. mál
[15:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum, sem er þskj. 156 og 139. mál. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Við vinnslu frumvarpsins var aflað umsagnar Matvælastofnunar.

Markmið frumvarpsins er að fella brott viðauka 1A, 1B og 2 við lög um dýrasjúkdóma. Í viðaukunum er að finna lista yfir tilkynningarskylda og skráningarskylda dýrasjúkdóma. Í stað viðauka við lögin er lagt til að ráðherra verði skylt að setja reglugerð sem hafi að geyma lista yfir þá sjúkdóma sem eru tilkynningar- og skráningarskyldir. Þá verði ráðherra skylt að flokka sjúkdóma eftir alvarleika þeirra.

Viðaukum 1A, 1B og 2 hefur ekki verið breytt frá árinu 2001 þegar lög nr. 31/2001, um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum, tóku gildi 16. maí 2001.

Viðaukarnir voru upphaflega settir í samræmi við reglur Alþjóðadýrasjúkdómastofnunarinnar í París. Sjúkdómalisti Alþjóðadýrasjúkdómastofnunarinnar hefur tekið miklum breytingum frá árinu 2001 og því er nauðsynlegt að unnt verði að uppfæra sjúkdómalista hér á landi ef nýir sjúkdómar greinast eða breytingar verða.

Með frumvarpinu verður því einfölduð sú framkvæmd að uppfæra sjúkdómalista hér á landi. Með skyldu ráðherra að mæla fyrir um sjúkdómalista í reglugerð er unnt að bæta við á listann þeim sjúkdómum sem greinast og ekki eru á listanum án þess að til þurfi að koma lagabreyting. Þá verður ráðherra einnig heimilt að breyta og uppfæra flokkun sjúkdóma eftir því sem við á. Tillaga þessi er í samræmi við framkvæmd í Noregi þar sem sjúkdómalistar eru tilgreindir í reglugerð.

Frumvarpið hefur ekki áhrif á meðferð vegna tilkynningarskyldra eða skráningarskyldra sjúkdóma. Áfram verður skylt að tilkynna um grun eða greiningu á tilkynningarskyldum sjúkdómum til Matvælastofnunar. Einnig verður óbreytt að dýralæknir sem greinir eða hefur grun um skráningarskyldan sjúkdóm skal hlutast til um að rannsaka frekar sjúkdóminn og tilkynna um málið eftir því sem nauðsynlegt er.

Þá stendur efni 17. og 18. gr. laganna um kostnað vegna einangrunar búfjár til varnar sjúkdómum óbreytt að öllu leyti nema vísað er til sjúkdóma eins og þeir eru flokkaðir samkvæmt reglugerð.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og ástæðum fyrir framlagningu þess og legg til að lokinni 1. umr. að því verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.