143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

beiðni þingmanna um upplýsingar.

[15:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég var á þingflokksfundi og kom síðan beint í þingsal þegar bjöllunni var hringt. Ég hef ekki haft tækifæri til að kíkja í hólfið mitt til að athuga hvað þar er. Ég hef því ekki hugmynd um hvort þær upplýsingar sem um var beðið — sem eru tillögurnar, öll gögn sem undir þeim liggja og fundargerðirnar — séu í hólfinu mínu. Það má hins vegar vera að svo sé.

Vegna orða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra áðan vil ég að það sé alveg á hreinu — og formaður hagræðingarhópsins getur örugglega staðfest þau orð mín — að þegar við fórum fram á þessi gögn kom það skýrt fram að tillögurnar væru úr höndum hópsins og þess vegna ætti að snúa beiðninni til forsætisráðuneytisins. Það kom ekki fram að þær væru ekki tilbúnar, heldur að búið væri að skila þeim og þess vegna snerum við okkur til ráðuneytisins en ekki beint til formanns nefndarinnar.