143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

makrílveiðar.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það hefði verið eðlilegt að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra þessara spurninga en ég skal taka að mér að svara þótt málefnið sé á sviði annars ráðherra. Eins og hv. þm. Árni Páll Árnason veit stendur til og er vinna þegar hafin við endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins þar sem verður horfið frá varanlegri úthlutun og menn færa sig yfir í það sem sáttanefndin svokallaða hafði raunar fjallað töluvert um og var komin langt með, þ.e. að samningar taki við af varanlegri úthlutun. Þá væri mjög óeðlilegt að ætla á sama tíma að fara að taka eina tegund þar út fyrir sviga og láta aðrar reglur gilda um þá tegund en aðrar.

Makríll, af því að ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé sérstaklega að ræða makríl, fer auðvitað inn í þetta kerfi með öðrum tegundum. Þeir sem verða með kvóta í makríl munu til dæmis þurfa að leggja sitt af mörkum til að setja í potta og aðrar ráðstafanir, alveg á sama hátt og þeir sem eru í bolfisksveiðum. Að ætla að taka tegundina út fyrir sviga að öðru leyti væri því mjög óeðlilegt og eingöngu til þess fallið að koma í veg fyrir að hér komist á heilsteypt kerfi sem skili hámarkshagræðingu og hámarkstekjum til samfélagsins.

Við skulum hafa það hugfast að nú lítur út fyrir að á þessu ári og því næsta verði tekjur af íslenskum sjávarútvegi meiri en nokkru sinni fyrr. Tekjur af veiðigjaldinu, það verður greitt veiðigjald af makríl, verða að minnsta kosti jafn miklar og á síðasta ári og heildartekjur af sjávarútvegi meiri en nokkurn tímann fyrr í sögu landsins.