143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

löggæsla í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð.

130. mál
[16:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu og vil nota tækifærið, vegna þess að hér var nefnt af hv. þm. Kristjáni L. Möller að mikilvægt væri núna að okkur tækist að gefa til baka, og nefna í því sambandi að það skiptir miklu máli og hefur skipt miklu máli í allri þessari vegferð í kringum það að auka fjármagn til löggæslunnar að það var gert, eins og ég hef svo oft gert þingheimi grein fyrir, innan ramma innanríkisráðuneytisins. Ekki var óskað eftir viðbótarframlagi heldur var fundið fjármagn til þess innan ramma innanríkisráðuneytisins.

Það hefur verið mjög mikilvægt fyrir mig og fyrir verkefnið að finna þann mikla stuðning sem það hefur á þingi, hversu kröftuglega þingmenn hafa stutt það og lýst vilja sínum ítrekað til þess að takast á við verkefnið til að við getum fjölgað lögreglumönnum og tryggt það öryggi sem landsmenn verða að hafa þegar kemur að brýnum verkefnum þeirra.

Þegar nefnt er hvenær starfshópurinn eigi að skila þá var þessi vinna ekki hugsuð með nákvæmlega sama hætti og hefðbundnir starfshópar. Mér hafa núna borist tilnefningar frá öllum þingflokkum og ég held að miðað sé við það að hópurinn hittist fyrst í næstu viku. Hópnum er falið að halda utan um verkefnið. Ég geri ráð fyrir að fyrstu tillögur muni liggja fyrir þegar vonandi er ljóst að fjárlagafrumvarpið muni afgreiðast með þeim hætti að fjármagnið verði til ráðstöfunar. Það verður fyrsta atrenna.

Ráðuneytið er búið að undirbúa vinnuna mjög vel þannig að þingmenn eiga að geta gengið að verkefninu nokkuð vísu og geta skoðað það með samanburðarhæfum hætti hvernig þeir vilja halda á því. Síðan sáum við fyrir okkur að hópurinn mundi halda utan um verkefnið meðan við værum að innleiða þessa aukningu til löggæslunnar. Það er ekki einungis það að við munum vonandi ná að fjölga löggæslumönnum heldur getur vel verið að hópurinn vilji líka forgangsraða í þágu einstakra verkefna. Við sáum því ekki aðeins fyrir okkur að hópurinn mundi skila tillögum heldur mundi hann síðan vinna með ráðuneytinu tillögur sem yrðu færðar inn til Alþingis.

Fyrst og síðast: Ég átta mig á því, virðulegur forseti, að vinnulagið er örlítið óhefðbundið en (Forseti hringir.) við töldum að þessu sinni að æskilegt væri að gera þetta þannig. Það er ekki ætlast til þess að hópurinn skili af sér formlegri skýrslu heldur tillögum um það hvernig hann vill ráðstafa fjármagninu og vinni þær síðan með ráðuneytinu og þinginu.