143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

innheimta dómsekta.

151. mál
[16:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil einungis ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns fyrir að halda þessu máli vakandi og lifandi. Það er gríðarlega mikilvægt. Einhverjir gætu litið svo á að þetta væru einungis tæknilegar útfærslur á niðurstöðu nefndar eða niðurstöðu ákveðinnar skýrslu. Það eru þarna, eins og ég sagði áðan, gríðarlega háar upphæðir, þetta hleypur á milljörðum og sannarlega þess eðlis og efnis að við eigum að taka á því.

Einnig tel ég mjög brýnt — þess vegna hvet ég hv. þingmanninn til að rukka um þau svör ef ekkert fer að bera á frumvarpinu í byrjun árs 2014 líkt og við stefnum að — að ræða fyrirkomulag sekta og sektarkostnaðar og ekki bara það heldur líka fullnustu refsinga og hvernig kostnaði í kringum dómskerfið okkar verður ráðstafað eins haganlega og við mögulega getum. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við gerum það, þarna eru mjög háar tölur á ferðinni.

Stundum finnst mér eins og þessi viðfangsefni séu svo tæknilegs eðlis að þau verði ekki mjög lifandi eða áberandi í opinberri umræðu. Þá minni ég á að hér er á ferðinni risastórt mál fyrir mjög marga einstaklinga og líka risastórt mál fyrir ríkissjóð, að tryggja að þessir peningar séu vel nýttir. En tilgangurinn er auðvitað á endanum alltaf sá að út úr þessu kerfi okkar komi einstaklingarnir betri en þeir koma að í upphafi.

Ég fagna umræðunni og vona að hún haldi áfram. Ég vona að okkur takist að tryggja að frumvarpið verði lagt fram innan þess tíma sem gert er ráð fyrir.